17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

11. mál, fátækralög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg býst við, að það þyki hlýða, að jeg skýri nokkru nánar frá frv. þessu og drögum þeim, er til þess liggja. Eins og háttv. þm. mun reka minni til, kom hjer fram í deildinni í fyrra ítrekun um að taka upp þál. frá 1917, og var það samþykt. Þál. frá 1917 fór fram á breytingu á núgildandi fátækralögum í 4 aðalatriðum:

1. Að styrkur, sem mönnum væri veittur vegna slysa, elli, sjúkdóma eða ómegðar, væri ekki sveitarstyrkur (þ. e. hefði ekki rjettindamissi í för með sjer).

2. Að þurfamannaflutningi yrði mannúðlegar hagað en áður hefði átt sjer stað.

3. Að frestur sá, sem 66. gr. laganna ræðir um, verði lengdur.

4. Stytting sveitfestistímans.

Þýðingarmesta atriðið er stytting sveitfestistímans. Mönnum hefir virst sveitfestistíminn alt of langur; hafa borist raddir að, víðs vegar af landinu, í þá átt í þingmálafundargerðum, og sama hefir oft heyrst hjer í þinginu. Um það aftur á móti, hversu stytting sveitfestistímans eigi að vera mikil, hafa menn ekki getað orðið ásáttir, og það hefir jafnvel komið til tals, að dvalarsveitin yrði að framfærslusveit.

Um 3. atriðið í þál. frá 1917 er það tekið fram í aths. við þetta frv., að það er fram komið af misskilningi. 66. gr. fátækralaganna má alls ekki breyta; er það því ekki tekið upp í þessu frv.

Hvað 2. atriði þál. viðvíkur, um að þurfamannaflutningur yrði mannúðlegri, var það tekið til greina að nokkru leyti í frv. stjórnarinnar, í 4. gr., en nú hefir háttv. Ed. felt það burtu, enda eru ákvæðin nú orðin ónauðsynlegri, ef sveitfestistíminn verður styttur niður í 3 ár, eins og hv. Ed. hefir gert.

Þá er 1. atriði þál., um að veittur styrkur vegna slysa, elli, sjúkdóma o. fl., skuli ekki hafa rjettindamissi í för með sjer. Hefir það verið tekið til greina; en lengra sá jeg mjer ekki fært að fara; sá ekki fært að telja þar til styrk vegna ómegðar, atvinnuleysis eða þess háttar. Þar er stjórnarskráin þröskuldur í vegi, að afnema megi alla styrki sem sveitarstyrki. Stjórnarskráin gerir ótvíræðlega ráð fyrir, að óendurgoldinn sveitarstyrkur eigi sjer stað, er hún gerir það að skilyrði fyrir kosningarrjetti, að ekki sje staðið í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Það er í mínum augum vafasamt, hvort heimilt sje að afnema þennan og þennan styrk, sem valdandi rjettindamissi. Miklu hreinlegra er þá að afnema alveg ákvæðið í 29. gr. stjórnarskrárinnar. Það liggur einmitt nú fyrir þinginu frv. um stjórnarskrárbreytingu, og væri þá ekki úr vegi að koma því þar að, og mjer hefir hálft um hálft hugkvæmst að bera fram brtt. um þetta efni við stjórnarskrárfrumvarpið, en er ekki búinn að fullráða það enn.

Jeg kem þá að aðalatriðinu í málinu, nefnilega stytting sveitfestistímans Jeg hafði fært hann niður um 5 ár, eðaumhelming, en hv. Ed. færði hann enn lengra niður — í 3 ár. Nú hefði verið rjett, samkvæmt þingvenju, að þetta frv. hefði komið fram hjer í Nd., er það var hjer í deildinni, sem áskorunin til stjórnarinnar hafði verið samþykt, um að bera þetta frv. fram. En því vjek svo við í þingbyrjun, að langflest málin voru þess eðlis, að þau hlutu að koma fyrst fram hjer nema mín frv., og því lagði jeg þetta frv. fyrir Ed. ásamt frv. um vinnuhjúalögin. Þetta frv. hefir ekki fundið náð fyrir augum háttv. Ed. Hún feldi burtu 1.–4. gr. úr frv. Var mjer þó sjerstaklega sárt um tvær fyrstu greinarnar, vegna þeirra rjettarbóta, sem þær höfðu í sjer faldar. Jeg vil halda því fram, að þar hafi verið haldið áfram inn á þá braut, sem rudd var áður með samþykt sjúkrahælis- og berklavamalaganna, að styrkur, þeginn fyrir þá sök, hefði engan rjettindamissi í för með sjer, og þar er greiddur úr ríkissjóði. Hjer var farið fram á, að engir sjúklingar, hvort þeir færu í sjúkrahús eða ekki, mistu borgaralegra rjettinda, þótt þeir yrðu styrkþegar, og að allir sjúkdómar væru jafnrjettháir í því efni. Þetta ætti og að verða mörgum manni fremur hvöt til að leita sjer læknishjálpar, er hann veit, að hann missir einskis rjettar í við það að verða styrkþegi, og jeg veit, að margur maðurinn veigrar sjer við að leita sjer mjög nauðsynlegrar læknishjálpar einungis af þessum ástæðum. Álít jeg því breytingu þá, sem að þessu leyti hefir verið gerð á frv., mjög órjettláta.

Jeg ætla ekki að hafa fleiri orð um það, að þar sem búið er að færa sveitfestistímann niður í 3 ár, þá má alls ekki fara lengra. Hefði verið rjettara að ákveða hann 5 ár. Það er ekki hægt að sjá að svo stöddu, hvaða áhrif þetta hefir á viðskifti sveitarfjelaga, fyr en reynslan er búin að skera úr því, og hefði jeg því kosið, að hann hefði aðeins verið færður niður í 5 ár, áður en stærra stökk var tekið. Hefi jeg svo ekki fleiru hjer við að bæta, en vænti þess, að háttv. deild taki frv. þessu vel og að því verði vísað til allhn., um leið og það verður samþ. til 2. umr., því á síðasta þingi hafði þessi nefnd þetta mál til meðferðar.