17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

11. mál, fátækralög

Hákon Kristófersson:

Sökum þess að jeg hefi haft talsverð afskifti af þessu máli á undanfarandi þingum, vil jeg fara nokkrum orðum um þetta frv., eins og það liggur nú fyrir frá stjórninni, ásamt breytingum þeim, er á því hafa verið gerðar í hv. Ed. Jeg þakka hæstv. atvinnumálaráðherra fyrir afskifti sín af málinu og að hann hefir lagt frv. þetta nú fyrir þingið. Álít jeg, að enda þótt breytingar hv. Ed. sjeu nokkuð víðtækar, þá sjeu þó í frv. eins og það liggur nú fyrir deildinni svo miklar rjettarbætur, að háttv. þm. muni hugsa sig vel um áður en þeir fella frv., eins og mjer skildist háttv. 2. þm. Reykv. (JB) helst vilja gera. Vil jeg skjóta því til þeirrar háttv. nefndar, er frv. fær hjer til meðferðar, að heppilegast mundi vera að mínu áliti að láta frv. ganga fram eins og það liggur nú fyrir.

Það, sem jeg tel mestan kost við frv., er ákvæðið um sveitfestistímann. Fyrir mjer hefir ávalt vakað að ljetta sem mest á fæðingarhreppnum. Jeg hefi margsinnis áður tekið það fram í sambandi við þetta mál, hve herfilega ranglátt það er að láta hreppsfjelag gjalda þess, að einhver, sem verður þurfamaður, hefir aðeins fæðst í hreppnum, og farið svo strax þaðan, en eftir máske 30–40 ár fær viðkomandi hreppur tilkynningu um, að hlutaðeigandi, sem á þá máske 7–8 börn, sje orðinn styrkþurfi og muni kominn á stöðugt sveitarframfæri. Hvaða rjettlæti er nú í því, að fæðingarhreppurinn taki við erfiðleikunum af slíkum mönnum, frekar en sá eða þeir hreppar, sem þeir hafa unnið eitthvað í mestan sinn aldur ? Jeg get tekið undir það með hæstv. atvrh. (KlJ), að það er ef til vill nokkuð stórt stökk að færa sveitfestistímann úr 10 árum niður í 3 ár, en líklegt er þó, að í framkvæmdinni verði þetta ekki til baga, að minsta kosti í flestum tilfellum.

Viðvíkjandi atriðinu um þurfamannaflutninga vil jeg taka það fram, að alstaðar þar, sem jeg hefi þekt til, hefir sá flutningur farið fram á mannúðlegan hátt og án þess að þurfalingarnir sættu illri meðferð á nokkurn hátt. Tel jeg því aukaatriði, þótt ákvæði um þetta væri ekki tekið í stjórnarfrv. Það, sem jeg hefi lagt mesta áherslu á, að breyta þurfi í sambandi við fátækralöggjöfina. sveitfestistímabilið, er enn eftir í frv., og teldi jeg illa farið, ef orð háttv. 2. þm. Reykv. (JB) yrðu til þess, að háttv. deild feldi frv. (GunnS: Það má breyta því). Jú, að vísu má það, ef það verður til bóta en fyrir því hefir maður enga tryggingu, nje heldur líkur, að það verði þá samþykt í háttv. Ed. Legg jeg því til, að það verði samþykt óbreytt, eins og það kom frá þeirri deild. Vona jeg, að háttv. deild verði mjer sammála um það, að þó frv. verði samþykt eins og það liggur fyrir, að þá megi síðar lagfæra þá galla, sem á því kunna að vera, þegar reynslan fer að tala í máli þessu. Þess má einnig geta, að ekki er nein von um það, að sú breyting á þessum lögum sje hugsanleg, sem allir gætu tjáð sig sammála, og að með það fyrir augum samþykki þeir nú frv., sem eru að sumu leyti óánægðir, svo málinu verði ekki teflt í tvísýnu.