17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

11. mál, fátækralög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Umræður þær, sem orðið hafa um frv. hjer í deildinni, gefa ekki tilefni til langrar ræðu. Háttv. þm. Barð. (HK) ljet í ljós þá ósk sína, að frv. næði fram að ganga, þrátt fyrir breytingar þær, er orðið hafa á því í hv. Ed. Jeg er alveg sammála þessum hv. þm. (HK) um það, að þurfamannaflutningi hefir eigi verið hagað þannig um undanfarin ár, að þörf sje á að breyta núgildandi lagaákvæðum um það efni. Hvergi, sem jeg þekki til, hefir sá flutningur farið fram á ómannúðlegan hátt, og minnist jeg ekki að hafa sjeð nokkra blaðagrein, að minsta kosti síðastliðin 20–30 ár, þar sem yfir því hefir verið kvartað.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JB) gat þess í ræðu sinni, að stjórnarfrv. fullnægði ekki þingsályktunartillögunni frá 1917. Það fullnægir þó tveim atriðunum (fyrsta og fjórða) að miklu leyti. Um 2. atriðið var talsverð rjettarbót í 4. gr. frv. stjórnarinnar, sem nú er fallið. Þá er eftir 3. atriði þingsályktunarinnar, en um það er skemst að segja, að það er bygt á misskilningi, og hefir þegar verið sýnt fram á það, 66. grein fátækralaganna segir aðeins, að þegar sveitarstyrkur er veittur utanhreppsmanni, skuli viðkomandi sveitarstjórn senda skýrslur innan hálfs mánaðar og krefjast endurgjalds af framfærslusveit, og sje þessa eigi gætt, missi sveitarsjóður rjett til endurgjaldsins. Jeg vil spyrja: Hvar hagar svo til hjer á landi, að ekki sje unt að koma slíkum skýrslum og tilkynningum frá sjer innan fjórtán daga? Að þetta ákvæði var sett í fátækralögin 1905, kom til af því, að dvalarhreppurinn, sem veitt hafði styrk, dró það oft óhæfilega lengi að tilkynna framfærslusveitinni styrkveitinguna, og varð það eðlilega oft til stórskaða fyrir hana. Sökum þess var það orðin venja hjá umboðsvaldinu fyrir 1905 að láta endurgreiðslurjett falla niður, ef mjög lengi drógst að tilkynna hinum framfærsluskylda hreppi styrkveitingnna. Sökum þessa var ákvæðið sett, og engin ástæða til að breyta því nú, þar sem 14 daga fresturinn er nægilega langur.

Þá vík jeg að ræðu háttv. þm. Borgf. (PO) Hann talaði lítið um sjálft frv., en kom fram með ýmsar almennar athugasemdir um fátækralöggjöfina og tillögur til að bæta úr þeim annmörkum hennar, er hann telur versta. Vill hann gera róttæka breytingu á allri löggjöfinni um fátækramál. Er það rjett, að margt má bæta og draga úr ýmsum annmörkum, svo sem skriffinskunni o. fl., en jeg tel óvíst, þótt breytt yrði löggjöfinni samkvæmt tillögum hans, að bætt yrði úr þeim galla. Samkvæmt tillögum hans eiga hrepparnir eftir sem áður að framfæra að 1/4, og helst þá gamla fyrirkomulagið að því er þá upphæð snertir, auk þess, að nýtt umstang kemur til sögunnar.

Að öðru leyti þarf að athuga þetta mál vel frá öllum hliðum, og get jeg ekki dæmt um tillögu háttv. þm. Borgf. (PO) að svo stöddu, því fyrirkomulag það, er hann stingur upp á, er talsvert flókið og erfitt að henda reiður á í fljótu bragði, en jeg vona, að ræða hans verði komin í lestrarsal fyrir 2. umr., svo að jeg geti þá verið búinn að athuga hana.