01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

11. mál, fátækralög

Bjarni Jónsson:

Brtt. mín er borin fram eftir ósk manna í Rangárvallasýslu. Eru hreppar þar, er beðið hafa 1500–2000 kr. tjón af þessum lögum eins og þau hafa verið framkvæmd.

Hv. frsm. meiri hl. (BH) tók fram, að sjálfsagt væri að fella lög þessi úr gildi. Er einungis farið fram á þetta til að verja hreppana áföllum, sem þeir verða fyrir, er það hendir, að ekki er hægt að flytja sjúkan mann á framfærslusveit hans sökum þess, að hann telst ekki, að skoðun læknis, ferðafær. Verður svo oft, að maðurinn fer ekki, enda þótt hann sje orðinn svo heill, að fært væri að flytja hann, og lendir svo allur þessi kostnaður, er af dvöl mannsins leiðir, eftir að læknirinn gaf vottorðið, á framfærslusveit mannsins. Er því sjálfsagt að fella burtu lög þessi, til að bót verði ráðin á þessu vandkvæði.