01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

11. mál, fátækralög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Háttv. 2 þm. Reykv. (JB) tók fram í ræðu sinni, að rangt hefði verið að leggja þetta frv. fyrir háttv. Ed., þar sem Nd hefði óskað þessara breytinga á fátækralögunum. Jeg tók það skýrt fram, þegar jeg lagði þetta frv. fram, að jeg hefði ætlað mjer að leggja það fyrir hv. Nd., en það stóð svo einkennilega á, að flest frv. stjórnarinnar voru þess eðlis, að þau varð að leggja fyrir Nd. fyrst, en hins vegar varð þó að skifta þannig verkum milli deilda þingsins, að þau yrðu sem jöfnust. Jeg varð því að leggja þetta frv. fyrst fram í Ed. Nú liggur mjer við að iðrast þess, að svo var gert, því það er enginn vafi á því, að frv. hefði verið betur tekið hjer. Háttv. Ed. hefir felt burtu 4 fyrstu gr. frv.; 3. og 4. gr. voru nú reyndar orðnar óþarfar eftir breytingum Ed., en í 1. og 2. gr. er mikil eftirsjá. Nú er frv. komið í þá mynd, að ekki er eftir nema ákvörðun sveitfestistímans, sem líka er og hefir altaf verið aðalatriðið í öllu þessu máli. Jeg tók það fram um sveitfestistímann við 1. umræðu málsins, að mjer þætti eigi rjett, að tekin væru of stór stökk í þessu efni, og mæltist til, að hann yrði látinn standa við 5 ár, eins og stóð í frv. mínu. Mjer þótti ósýnt, hver áhrif meiri stytting sveitfestistímans gæti haft á viðskiftin milli sveitarfjelaganna, eða hvaða áhrif þetta gæti haft á innflutning fólks til sumra sveitarfjelaga, og sama hjelt jeg fram í Ed. Þessa var nú ekki gætt, og tíminn var færður niður í 3 ár, og þó mjer þyki það fulllangt farið, mun jeg þó sætta mig við það, ef þar verður þá numið staðar. Jeg hefi orðið þess var, að það ei talsverður uggur hjá þm. við það, að samþykkja nokkra brtt. við frv., vegna þess, að Ed. muni ekki fallast á þær, og geti þá svo farið, að það dagaði uppi í þinginu. Jeg sje enga ástæðu til að óttast slíkt. Býst jeg við, að Ed. setji sig ekki upp á móti skynsamlegum breytingum. En enda þótt svo færi, þá ætla jeg, að ekki væri svo mikill skaði skeður, þótt málið biði til næsta árs. Það mætti þá undirbúa frv. á ný og jafnframt taka til yfirvegunar í sambandi við það brtt. háttv. þm. Str. (MP), og þá einkanlega tillögur háttv. þm. Borgf. (PO) sem hann kom með í ræðu sinni við 1. umr. þessa máls hjer í deildinni, og sem gengu út á það að gera landið alt að einu framfærsluumdæmi.

Jeg skal ekki ræða þetta frekar út frá almennu sjónarmiði en þegar hefir gert verið, en jeg ætla að minnast lítilsháttar á einstakar brtt., sem fram hafa komið.

Það er þá fyrst brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JB), og get jeg verið stuttorður um þær, því svo má heita, að þær sjeu orði til orðs samhljóða 1. og 2. gr. í hinu upphaflega frv. stjórnarinnar. Það er aðeins sá munur, að fyrir 2 mánuði í 1. gr. frv. stjórnarinnar kemur 1 mánuður í brtt., og í stað 65 ára aldurs í 2. gr. frv. koma 60 ár í brtt. Þetta, hvort tiltekinn er 1 mánuður eða 2, skiftir engu verulegu máli, og ekki heldur það, að aldurstakmarkið sje fært niður í 60 ár. Er það líka oft svo, að menn, sem unnið hafa erfiða vinnu alla æfi, eru orðnir bilaðir að heilsu um sextugt. Get jeg því vel fallist á þessar brtt., en hitt skil jeg ekki, sem háttv. þm. Str. sagði, að þær mætti skoða samþyktar án atkvgr., en vitanlega dæmir hæstv. forseti um það.

Þá er það brtt. háttv. þm. Dala. (BJ), um að nema úr gildi lög nr. 33, 20. okt. 1913, sem gerbreytir hinni upphaflegu 63. gr. fátækralaganna, og er meining hans, að það sje gert án þess nokkuð komi í staðinn, því ekki mun það vera meiningin, að gamla 63. gr. fátækralaganna komi aftur í gildi svona af sjálfu sjer. En þetta getur ekki staðist. Eitthvað verður að koma í stað þessarar greinar. Jeg skil, hvaða ákvæði það eru í greininni, sem hann vill nema burt, en önnur ákvæði eru í greininni, sem ógerningur er að nema í burtu án þess að eitthvað komi í staðinn. Álít jeg, að þessi háttv. þm. (BJ) gerði rjettast í því að taka þessa till. aftur nú og laga hana fyrir 3. umr.

Þá er það næst háttv. þm. Str. (MP), sem kemur með merkilegar viðauka- og breytingartillögur. Sem atvinnumálaráðherra get jeg verið með þessum brtt., en sem settur fjármálaráðherra verð jeg að gera nokkrar athugasemdir við þær. Það dugir ekki að einblína á hagnað sveitanna eingöngu í þessu máli, heldur verður einnig að taka tillit til útgjalda ríkissjóðs. Ef brtt. ná fram að ganga, þá má heita svo, að allir sjúklingar, sem eftir læknisráði dvelja utan heimila sinna, sjeu kostaðir af landssjóði. Jeg tel ekki þessa 2/5, sem gert er ráð fyrir, að framfærslusveitirnar greiði, þar sem það má aldrei nema meiru en 400 krónum á ári, en sjúkravist kostar eftir þeirri reynslu, sem fengin er, um 2–3 þúsund krónur á ári, og fer heldur vaxandi.

Samkvæmt þessum breytingartillögum á að bæta við sjúkrahúsin geðveikrahælum og gamalmennahælum. Þetta er nú að vísu alveg rjett, hvað það fyrra snertir, því í raun og veru eru geðveikrahæli ekki annað en sjúkrahús, og er það misgáningi að kenna, að það var ekki tekið með sjúkrahúsum 1921, er lögin voru sett. En alt öðru máli er að gegna með gamalmennahæli. Er nú eitt komið upp hjer í Reykjavík, eins og kunnugt er, og búast má við, að þau komi í fleiri kaupstöðum landsins. Má búast við, að margir fari í þessi hæli, sem ekki þurfa þess veikinda vegna. Er oft örðugt að koma gamalmennum fyrir, sökum skapsmuna þeirra; myndi þá hlutaðeigandi læknir að sjálfsögðu leggja með því, að þau færu í gamalmennahælið, og væru þau þar með komin á landssjóðinn. Þetta mundi auka mjög kostnað fyrir landssjóðinn, og er hætt við, að bæta mætti við það fje, sem ætlað er til þessa, nú í fjárlögum, og það jafnvel svo skifti hundruðum þúsunda, ef þessar brtt. yrðu samþyktar óbreyttar. Jeg sje heldur enga ástæðu til þess að taka þessi gamalmenni alveg upp á arma ríkisins, því það mundi draga úr þeirri eðlilegu skyldu, sem nákomnir venslamenn hafa hingað til talið sjer skylt að uppfylla, nefnilega að veita sjer náskyldum gamalmennum framfærslu. Þau eru oft ekki sjúklingar, og svo eru heldur engin ákveðin takmörk fyrir því, hve nær beri að telja mann gamalmenni. Máske má miða það við 60 ár, en margir eru orðnir útslitnir og ófærir til vinnu yngri. Jeg hefi t. d. oft sjeð í kirkjubókum tekið svo til orða um menn milli 50 og 60 ára, að þeir hafi dáið af ellisjúkdómum. En einhver takmörk verður að setja. Jeg vil benda háttv. flm. þessara brtt. (MP) á það, að í 1. gr. brtt. eru tvítalin lyf og læknishjálp sem hluti meðlagskostnaðar; stendur bæði í 1. og 3 málsgrein.

Um b-lið 1. gr. brtt., að styrkur samkvæmt a- og b-lið sje ekki afturkræfur, vil jeg gera þá athugasemd, að vel getur komið fyrir, að styrkþegarnir verði síðar færir um að endurgreiða fenginn styrk, t. d. ef þeim áskotnaðist arfur, og væri þá eðlilegt, að þeir borguðu styrkinn aftur.

Að öðru leyti hefi jeg ekki frekara fram að færa að svo stöddu.