01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

11. mál, fátækralög

Frsm. minni hl. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg hefi ekki miklu að svara, því deilur hafa orðið litlar.

Háttv. þm. Str. (MP) var að undra sig á því, að jeg hefði bundist samtökum við Framsóknarflokkinn að láta engar brtt. ná fram að ganga, sem aðrir kynnu að koma með. Þetta er alls ekki rjett. Jeg átti við nokkra flokksbræður mína. Þetta mál var rætt á flokksfundi, og hneigðust skoðanir manna yfirleitt í þessa átt. Sje jeg ekkert merkilegt við það, þótt flokkur ræði og bindist samtökum eins og hjer var gert, um áhugamál. Við álitum, að þýðingarlaust væri að koma með brtt; þær yrðu einungis til að fleyga málið. Annars hefir því verið yfir lýst, bæði af mjer og fleirum, svo sem hæstv. atvrh. (KIJ), að nauðsynlegt sje að taka fátækramálin til nákvæmrar yfirvegunar sem allra fyrst, og þá geta þessar breytingar komið til greina.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. atvrh. (KlJ) sagði, að endurskoða þyrfti fátækralöggjöfina, þá er jeg honum sammála um það. En það er eins hægt að endurskoða hana, þótt sveitfestistíminn verði ákveðinn 3 ár. Annars skal jeg taka það fram, að það er ekki alveg rjett hjá hv. frsm. meiri hl. (BH), að jeg hafi ekki tekið afstöðu til brtt. hv. þm. Str. (MP). nema aðeins á þessum grundvelli. Háttv. frsm (BH) var líka að tala um kosningarnar. Fyrir mjer er ekkert kosningaflesk að mæla með þriggja ára sveitfestistíma. heldur fylgi jeg þar einungis sannfæringu minni. Sjest það berlega af því, að jeg mun ganga á móti brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JB), til þess eins, að þessi breyting nái fram að ganga nú á þessu þingi.