01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

11. mál, fátækralög

Magnús Pjetursson:

Mjer þótti gæta mikils misskilnings í ræðu hæstv. atvrh. (KIJ), þegar hann sagði, að sú afleiðing mundi verða af brtt. mínum, að allir sjúklingar í landinu, sem væru utan heimilis síns, yrðu kostaðir af ríkissjóði. Þetta getur ekki náð nokkurri átt, þar sem hjer er aðeins að ræða um sjúka þurfalinga, eins og stendur í brtt. Ef þetta væri rjett hjá hæstv. atvrh. (KIJ), ættu allir sjúklingar á landinu nú að njóta styrks að 3/5 hlutum úr ríkissjóði. Það er ekki heldur rjett, sem mjer skildist hæstv. atvrh. vilja halda fram, að jeg vildi bæta á ríkissjóð kostnaðinum við sjúklingana í geðveikrahælinu, því að eftir núgildandi lögum ber ríkissjóður hita og þunga dagsins, kostar sjúklingana að mestu leyti. Hv deild samþykti þessa skoðun mína með atkvæðagreiðslu um meðlagið með sjúklingum á Kleppi, þar sem hún lækkaði það frá því, sem var í frv. stjórnarinnar. Hún vildi því leggja meira af þeim útgjöldum á ríkissjóð. (PO: Hitt hefði komið í bága við lögin). Það kemur eins mikið í bága við lögin, ef taka á nokkurt tillit til þeirra í þessu sambandi, hvort meðlagið er kr. 1.50 eða 2 kr.

Um takmarkanir á aldri þeirra, sem kallast mega gamalmenni, þarf jeg ekki að svara hæstv. atvrh. (KIJ). Jeg geri ráð fyrir, að gamalmennahælin mundu sjálf ákveða aldurstakmarkið, svo að engin vandræði mundu af því hljótast, þó að ekki væri ákvæði um þetta í frv. Mjer finst, að hæstv. atvrh. (KIJ) hefði átt að geta verið samþykkur þessu ákvæði, þar sem hann vildi beina fátækralögunum inn á þá braut með frv. sínu, að gamalmenni yrðu ekki skoðuð sem þurfalingar. Þar sem hæstv. atvrh. (KIJ) taldi, að styrkurinn væri ekki afturkræfur samkvæmt brtt. minni, vildi jeg benda á, að jeg hefi ekki gert annað í þessu efni en að fylgja lögunum frá 1905. Þar stendur í 78. gr. um slíkar styrkveitingar: „Landssjóðsstyrkur samkvæmt þessari grein og næstu grein á undan er ekki afturkræfur.“ Jeg hefi aðeins tekið þetta ákvæði upp í brtt. mína. Því er við þá löggjafa að eiga, sem þá sátu á þingi, ef þetta er rangt. Sjúkrahússtyrkur, sem nú er veittur styrkþurfum, er ekki afturkræfur samkvæmt lögum.

Hv. frsm. meiri hl. (BH) virðist hafa misskilið mig, þegar jeg talaði um rök, sem væru ekki þinghæf. Jeg taldi það aldrei óþinghæft að beita menn ekki misrjetti. Þetta veit jeg, að hv. þm. hefir skilið, þó að hann ljetist ekki gera það. Hitt taldi jeg ekki þinghæft, að tala um, að menn væru beittir misrjetti, til þess að breiða yfir misrjetti, sem áður hefir komið fram við miklu fleiri, og koma í veg fyrir, að úr því yrði bætt eftir föngum. Hv. frsm. (BH) sagði, að jeg vildi gera alt landið að allsherjarframfærslusveit. En jeg vil einungis bæta úr því misrjetti, sem er á milli þeirra, sem eru svo heppnir að komast í sjúkrahús, og hinna, sem ekki eiga því að fagna. Jeg hygg, að þetta ákvæði mundi ekki baka ríkissjóði mjög tilfinnanleg útgjöld, en hins vegar munu núgildandi lög baka sumum sjúklingum talsvert tjón.

Þá drap háttv. frsm. meiri hl. (BH) á það, hvort unt væri að breyta ákvæðum gildandi laga með fjárlagaákvæðum. Jeg geri ráð fyrir, að þó að kaffi- og sykurtollurinn yrði feldur niður úr tekjubálkinum, mundi það ekki þykja nægilegt, ef hann væri ekki afnuminn með lögum, og ekki heldur, þó að ákvæðið væri í fjárlögum, að tollurinn skyldi lækka um ákveðinn hundraðshluta. Jeg gæti nefnt mörg fleiri dæmi þess, að ekki þyki nægilegt að breyta gildandi lögum með fjárlagaákvæðum.

Hv. frsm. minni hl. (GunnS) gat þess, sem mjer þótti vænt um, að hann hefði tekið of djúpt í árinni í fyrri ræðu sinni er hann talaði um flokkssamþykt, heldur hafi það verið í samráði við nokkra flokksmenn hans, er hann hjelt þessu fram. Þetta gleður mig, því að þessi ummæli komu mjer á óvart, enda er mjer kunnugt um, að sumir samflokksmenn hans urðu hissa, er þeir heyrðu yfirlýsinguna í fyrri ræðunni.

Þá var það ein ástæða hv. frsm. minni hl. (GunnS) fyrir því, að hann vildi ekki láta breyta öðru en sveitfestistímanum, að því var lýst yfir af honum og hæstv. atvrh. (KIJ), að lögin þyrfti að endurskoða á næsta þingi. Mjer finst þetta vera sjerstaklega gild ástæða fyrir þingmenn að koma nú fram með þær breytingar, sem þeir vilja gera á lögunum. Alt, sem kemur fram á þennan hátt, er góð hending til stjórnarinnar, þegar hún fer að endurskoða lögin. Veit jeg, að hæstv. atvrh. muni skilja þetta fullvel.

Þó að nú sje altaf verið að ógna þessari hv. deild með hv. Ed., þá vil jeg minna á, að það er til hlutur, sem heitir sameinað þing, og jeg hefi ekki orðið var við það enn þá hjá þessari háttv. deild, að henni væri ljúft að láta undan við fyrstu tilraun, þegar hún er ósamþykk háttv. Ed. Mig furðar á því, að hv. frsm. minni hl. (GunnS), sem er kunnur að því að fylgja jafnan sinni eigin sannfæringu, skuli nú ætla að greiða atkvæði gegn brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JB), sem hann greiddi atkv. með fyrir nokkrum dögum, þegar rætt var um breytingar á stjórnarskránni. Það var af þeirri ástæðu, að jeg skaut því í gamni til hæstv. forseta, hvort ekki mætti telja þessa brtt. samþykta án atkvgr., þar sem deildin hefir nýlega með miklum meiri hluta lýst yfir fylgi sínu við hana.

Jeg skal játa, að það er rjett, sem hæstv. atvrh. (KIJ) benti á, að í 1. brtt. minni er 4–5 orðum ofaukið, en þessu mætti breyta við 3. umr.

Jeg vænti þess, að hv. deildarmenn athugi vel, hve brtt. mínar gera litlar breytingar á lögunum frá 1921.

Jeg er ekki að skapa nýtt fyrirkomulag með brtt. mínum, því að það var gert á þinginu 1921, heldur vil jeg samræma fleiri atriði við það fyrirkomulag, sem þá var ákveðið. Vænti jeg því, að brtt. mínar fái góðar undirtektir, ekki síður en fátækralagabreytingin fjekk hjer á þingi 1921.