26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

43. mál, vegir

Einar Þorgilsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 51. Eins og háttv. þm. geta sjeð. er farið fram á það, að vegarspottinn frá Hafnarfirði að Garðskaga sje tekinn upp í þjóðvegatölu og viðhaldið af ríkisfje. Samgöngumálanefnd hefir lýst yfir áliti sínu, og er heyranlegt, að erindið hefir ekki fundið náð fyrir augum hennar. Það er ekki nauðsynlegt nú að fara að endurtaka ástæðurnar fyrir brtt., þar sem sýslubúar hafa krafist þessa árlega undanfarin ár og samskonar erindi verið flutt hjer í hinu háa Alþingi undanfarin þing, og þá tilgreindar ástæður. En mjer þykir þó tilhlýðilegt að fara nokkrum orðum um málið. Það er þá fyrsta ástæðan, hinn óhærilegi kostnaður fyrir sýslubúa af lagningu vega og viðhaldi þeirra síðastliðin 20 ár hefir verið unnið að vegalagningu og fje lagt fram af sýslunni móts við ríkissjóð, og auk þess kostað viðhald hinna eldri vegaspotta, sem eðlilega hafa þurft talsverðs viðhalds við eftir svo langan tíma og vegna hinnar miklu umferðar um vegina. Þar af leiðandi er sýslan komin í svo miklar skuldir, að vextir og afborganir af lánunum er mjög tilfinnanlegur útgjaldaliður. Eftir því sem jeg veit best, munu skuldir sýslunnar fyrir vegakostnað nema um 90000 kr., sem liggur mest í víxlum og öðrum þeim skuldum, sem mjög kalla að. Sýsla þessi á heldur engan þjóðvegarspotta, eða sem ekki getur talist, og mun hún vera sú einasta sýsla á landinu í þeirri grein, og má telja það sem eina ástæðuna fyrir efni brtt.

Kostnaður við lagningu nýrra vega og viðhald hinna lögðu vega, ásamt vöxtum og afborgunum af skuldum fyrir eldri vegalagningar, eru sýslubúum svo um megn, að þeir geta ekki undir risið.

Eitt atriði, sem taka verður til greina, er það, að á þessum vegarkafla mun vera nær því mesta umferð, sem er um nokkurn sýsluveg á landinu, og það á þeim ferðafærum, sem mest slíta vegunum, sem sje mannflutninga- og vöruflutningabílum, ekki minna af utansýslubúum í þeirra þarfir en sýslubúum sjálfum. Sýslubúar fara ekki fram á neinn samgöngustyrk á sjó, og ætti það fremur að styðja þennan málstað þeirra, þar sem margar eða flestar sýslur landsins verða aðnjótandi styrks frá ríkinu sjávarsamgönguleiðina, en sýslubúum finst þeir leggja sinn drjúga skerf til ríkissjóðs móts við aðrar sýslur, og ættu því tilkall til þess, að ríkissjóður styrkti þá til samgangna þess ríflegar á þeim sviðum, sem þeim er það nauðsynlegast og haganlegast, og það er með vegum og viðhaldi þeirra. Það er því næsta furðanlegt, að háttv. samgöngumálanefnd og vegamálastjóri líta svo á, eftir nefndarálitinu að dæma og ræðu háttv. frsm., að eigi beri að taka þessa breytingartill. til greina, og það þó furðanlegra, að vegamálastjóri, sem er kunnugur öllum ástæðum, skuli leggja á móti því, að brtt. nái fram að ganga, jafnvel þótt hann ætli sjer í ár, eins og hann síðastliðið ár hefir gert, að beina hluta af bílaskattinum til viðgerðar á umræddum vegi, þá er það gott, það sem það nær, en bæði er bílaskatturinn óviss í framtíð og ekki svo mikill, að af honum sje hægt að veita í margar áttir, svo verulega um muni; en viðurkenning er það af vegamálastjóra fyrir þörf til þessa vegar, það sem hann hefir til vegarins veitt, og góðra gjalda vert. Leyfi jeg mjer að vænta þess, að háttv. deild sjái það, að þrátt fyrir álit háttv. samgöngumálanefndar og umsögn vegamálastjóra, er hjer um að ræða svo mikla nauðsyn og svo sanngjarna beiðni, að henni verði ekki til lengdar synjað. Enda mun svo fara, hversu sem um málið fer að þessu sinni, að því verði framvegis haldið fram af sýslubúum og erindrekum þeirra, ef ekki nær fram að ganga nú, uns það verður viðurkent sem sanngirniskrafa og því verður sigurs auðið.