24.03.1923
Neðri deild: 28. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Kristjánsson:

Mig furðar stór kostlega á framkomu háttv. 2. þm. Húnv. (ÞórJ). Jeg álít, að hann hafi orðið nokkuð seinn til að koma fram með sínar mótbárur, svo að andmæli hans sjeu alveg ótímabær, enda geri jeg ráð fyrir því, að þau hafi ekki mikil áhrif á háttv. deild. Jeg vil líka í þessu sambandi benda á það, að frá mörgum þingmálafundum hafa borist áskoranir um breytingar á tekjuskattslögunum, í þá átt, sem nú er gert. Tillaga hans gengur því beinlínis í þá átt að lítilsvirða þessar óskir. En þar sem þær eru áreiðanlega sanngjarnar, af því að skatturinn hefir komið of þungt niður á efnaminstu mönnunum, er það því meiri fjarstæða að ætla að lítilsvirða þær kröfur. Önnur ástæðan, sem hann færði fram fyrir því, að ekki mætti breyta lögunum nú, var sú, að framtölin væru komin og skattanefndir gætu því ekki farið eftir nýju ákvæðunum. En þetta er aðeins misskilningur; yfirskattanefndin er það í lófa lagið að færa þetta í rjett horf með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Aðalatriðið er þó, að það er skylda þingsins að breyta þeim lögum, sem ekki hafa reynst vel, án tillits til alls gaspurs um óhæfilega tíðar lagabreytingar, sem nú er altaf verið að stagast á: og vonandi eru háttv. þingmenn búnir að átta sig svo á þessu máli, að ræða háttv. 2. þm. Húnv. (ÞórJ) geti engin áhrif haft.