23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

43. mál, vegir

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg hefi ekki miklu að bæta við það, sem háttv. frsm. meiri hl. (ÞorstJ) sagði. Hann hefir lýst því yfir, að nefndin hafi borið sig saman við vegamálastjóra og tekið ákvarðanir sínar í samræmi við hann. Þessu e jeg einnig sammála;

Þetta mál var tekið af dagskrá á dögunum, vegna þess, að mönnum var þá ókunnugt um, hvernig hann mundi líta á þessar tvær brtt. á þskj. 225 og 232, en nú mælir hann á móti báðum, og vona jeg, að þingmenn muni fallast á það.

Hvað snertir till. á þskj. 225 segir vegamálastjóri, að þeim vegi, sem þar er talað um, sje viðhaldið með fjallvegafje. Það er fjallvegur um Brekkuháls og Gemlufallsheiði á þessari leið, sem hann álítur óráðlegt að gera að þjóðvegi, en telur engan vafa á, að fje muni fást úr ríkissjóði þeim til viðhalds.

Sama máli er að gegna um síðari till. á þskj. 232, sem í raun og veru er sama till. og áður hefir verið feld hjer í deildinni. Það er fjallvegur, sem haldið er við af ríkisfje. Enn fremur taldi vegamálastjóri sjálfsagt, að samkvæmt till. á þskj. 392 yrði sýslunefnd Norður-Múlasýslu að ákveða sýsluveg frá Fossvöllum upp að Skjöldólfsstöðum. Á sama hátt var hann fylgjandi þeirri brtt., að vegurinn frá Einarsstöðum að Reykjahlíð yrði feldur úr tölu þjóðvega og gerður að sýsluvegi. Sem sagt, jeg vænti að háttv. deild hagi sjer eftir till. vegamálastjóra.