23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

43. mál, vegir

Frsm. minni hl. (Sigurður Stefánsson):

Jeg vil aðeins lýsa yfir því, að minni hluti nefndarinnar hefir ekki breytt aðstöðu sinni í þessu máli, og greiðir því atkvæði á móti, eins og við 2. umr. Eins og öllum er kunnugt, eru ýmsar brtt. fram komnar, en vegamálastjóri hefir lýst yfir því, að hann muni leggja vegalögin endurskoðuð fyrir næsta þing. Hann mundi því helst hafa kosið, að þetta frv. hefði ekki komið fram. Sömuleiðis tók hann það fram, að þó frv. yrði samþykt, þá myndi samt ekkert fje verða fyrir hendi til þessara framkvæmda í sumar, og líklega ekki á næsta sumri. Jeg get því ekki sjeð, hver ágóðinn verður af því, að frv. nái fram að ganga, og skil ekki, hvers vegna ekki mega bíða með þessar breytingar við vegalögin þar til lögin verða öll endurskoðuð á næsta þingi. Það eru fjárhagsörðugleikar ríkisins, sem hafa knúið mig og fleiri til þess að vera á móti því, að svona sje verið að grípa inn í vegamálakerfi landsins og stofna til nýrra útgjalda um skör fram. Vegna fjárhagsörðugleikanna verður að fresta ár frá ári nauðsynlegum brúa- og vegagerðum, en til þess að halda þeim vegum við, sem þegar eru gerðir, verður auðvitað að leggja fram nokkurt fje árlega, hvernig sem fjárhagurinn er. Til þess hefir ríkið brýna skyldu. Því minni ástæða er nú til þess að fara að koma með þennan veg, sem frv. á þskj. 45 ræðir um. Hann liggur um strjálbygt hjerað, svo að þó hann sje býsna langur, þá er aðeins nokkuð á annað þúsund manns, sem við hann býr. Auk þess er engin áætlun fyrir hendi, um hvað hann kostar. Viðvíkjandi brtt. get jeg annars lýst yfir því, að við, minni hluti nefndarinnar, höfum óbundin atkv. um þær. Fyrir mjer eru það eingöngu fjárhagsörðugleikarnir, sem valda því, að jeg mun ekki geta ljeð þeim fylgi mitt Það er raunar skemtilegt fyrir háttv. þm. að geta haft eitthvað nýtt heim með sjer í vasanum, til að gæða kjósendum á. Og auðvitað er þörf á því, sem hjer er farið fram á, en að hún sje verulega brýn, tel jeg vafamál. Og það vil jeg að lokum láta um mælt, að hvaða þm. svo sem hefðu flutt þessar brtt., þá hefði jeg samt verið á móti þeim, af sömu ástæðum.