24.03.1923
Neðri deild: 28. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

93. mál, vegir

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Jeg skal reyna að fara svo í þetta mál, að ekki þurfi að spinnast langar umr. út af því. Eins og frv. ber með sjer, er þar farið fram á, að viðhaldinu á veginum, sem liggur um Ölfus og Flóa og austur að Þjórsárbrú, verði ljett af Árnesingum. Svo sem sjá má af greinargerðinni, hafa sýslufundir Árnesinga hvað eftir annað farið þessa á leit, en hingað til árangurslaust; málið fleirum sinnum komist inn í þingið, en fallið þar. Nú er svo komið, að Árnesingar telja sjer ekki aðeins ofraun að annast þann veg, sem hjer er óskað, að af þeim verði ljett, heldur hefir og síðasti sýslufundur þeirra beiðst þess, að Eyrarbakkaflutningabrautinni, kaupstaðarleiðinni frá Selfossi til Eyrarbakka, um 11 km. langri, verði komið á ríkisviðhald Er sá vegur mjög úr sjer genginn og að dómi vegamálastjóra nauðsyn á að endurbyggja hann. Er síst furða, þótt sýslufjelagið mæltist nú undan slíkum byrðum, er það fær alls ekki rönd við reist.

En við flm. viljum ekki biðja nema nokkurs af því nauðsynlegasta, í þeirri von, að háttv. þm. sinni máli okkar því fremur, sem skemra er farið.

Jafnframt vegarviðhaldinu tel jeg sjálfsagt, að landssjóður taki að sjer brýrnar á Ölfusá og Þjórsá; hin síðari er nú á framfæri Rangárvallasýslu. Það er ríkisins, en ekki fátækra sýslufjelaga, að gæta svo dýrra mannvirkja og standa straum af nauðsynlegum viðgerðum.

Jeg álít ekki neina þörf að fara hjer nákvæmlega út í fjárhagsástæður sýslunnar. Málinu verður væntanlega vísað til nefndar, og þar gefst tækifæri að athuga slíkt. Jeg vil þó drepa lítið eitt á einstöku atriði.

Þegar litið er á skýrslu vegamálastjóra þá er það ljóst, að Árnesingar bera langhæst vegagjöld af öllum sýslum landsins Eru þau jafnaðarlega nú síðustu árin um 50% af öllum gjöldum sýslunnar, og er auðsætt, hver baggi það er, þegar þess er gætt, hve þungar aðrar byrðar sýslunnar eru. Það er nú líka svo komið, að sýsluflelagið er algerlega að sligast undir þess. Þetta er svo viðurkent að það þarf í rauninni engrar staðfestingar. Á þinginu 1921 komst samgöngumálanefnd Nd. að þeirri niðurstöðu, að vegagjöld Árnessýslu væru alveg einstök og ekki samanberandi við vegagjöld nokkurrar annarar sýslu. Ætti þetta eitt að vera nægileg staðfesting á orðum mínum. Eru sumir þeirra háttv. þm. enn í samgöngumálanefnd og fá nú tækifæri til að staðfesta skýrslu sína.

Áður en jeg lýk máli mínu, vil jeg geta þess, að sú ívilnun, sem kemur fram í frv. um sýsluvegasjóði, sem nú er á ferðinni, kemur ekki Árnesingum að þeim notum, sem æskilegt væri. Er það af þeim sökum, að fasteignamat þar í sýslu er tiltölulega mjög hátt, og alt tekið til greina sem lágmarksupphæð áður en landssjóðsstyrkur byrjar, húsaverð og umbætur síðustu ára, sem hvorttveggja er tiltölulega hærra í Árnessýslu en nokkurri annari sýslu á landinu. En það væri ómaklegt, að bændur yrðu aðnjótandi því minni ríkishjálpar til vegabóta, sem þeir hafa meir eytt fjárþoli sínu til húsabóta og jarðabóta, og er rangt að láta menn á þann hátt gjalda framtakssemi sinnar. Jeg vildi aðeins benda á þetta, svo að nefndin, sem kemur til að fjalla um málið, geti tekið það til athugunar. Annars tel jeg nægja að vísa til greinargerðarinnar, því að þar eru ástæður að öðru leyti teknar fram, þar á meðal hverjir það eru, sem nota veginn, og er það ekkert aukaatriði.

Að síðustu vil jeg víkja að þessu, sem jeg veit að sumir háttv. þm. setja fyrir sig hvort varlegt sje að fara að hreyfa nokkuð við vegalögunum, af ótta við, að aðrar sveitir og sýslur komi á eftir, ef ein ríður á vaðið. Hvað það snertir, álít jeg ekkert að óttast. Og það af þeirri einföldu ástæðu, að augljóst er, að við Árnesingar erum allra manna verst settir í þessu efni, og háttv. þm. veita okkur tvímælalausan rjett án alls ótta við þá, er á eftir koma. Slíkt má ekki aftra framgangi góðs máls.

Það hafa að vísu nú þegar komið fram brtt. við frv., en þar sem nú er 1. umr. málsins, tel jeg það ekki tímabært að hreyfa við þeim nú, og verður betra tækifæri til þess síðar. Jeg skal svo leyfa mjer að leggja það til, að málinu verði, að lokinni umr., vísað til samgöngumálanefndar.