04.05.1923
Efri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

93. mál, vegir

Frsm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Í nefndarálitinu á þskj. 524 er flest það tekið fram, sem nefndin vill segja um þetta mál. Nefndin álítur, að vegalögin eigi að endurskoðast í heild sinni fyrir næsta þing. Vegamálastjóri hefir tjáð nefndinni, að hann hafi ekkert á móti því frá sinni hálfu. Hann álítur einmitt, að viðhaldi flutningsbrautanna verði að ljetta af sýslunum, því þeim sje það bæði um megn fjárhagslega, og auk þess sje ólag á viðhaldinu.

Landssjóður hefir ekki sjeð sjer fært að afhenda sumar flutningabrautirnar, vegna þess að vegamálastjóri hefir ekki treyst sýslunum til að annast viðhaldið, svo í lagi væri. Þess vegna verði breytingar óumflýjanlegar.

Að vísu mundi þetta hafa aukinn kostnað fyrir ríkissjóð, en það verður þó minna en virðast mætti, vegna þess að tillag ríkissjóðs hækkar mjög eftir frv. því, sem nú nýlega er orðið að lögum. Enda gætu þá sýslurnar notað það fje, sem sparast á viðhaldinu, til þess að auka sýsluvegina. Það yrði meira gert af vegum. Nefndin er á einu máli um, að þetta eigi að ná samþykki. Hjer eru sjerstakar ástæður fyrir hendi. Umferðin t. d. frá Reykjavík austur um sveitir er orðin afarmikil, en sýslusjóður Árnessýslu mjög ausinn. Viðhald er mikið og lán hefir verið tekið. Auk aðalvegarins hefir Árnessýsla 3 aðra vegi, Grímsnesbraut, Skeiðaveg og álmu til Eyrarbakka; svo í mörg horn er að líta.

Sama gildir og um Borgarnesbrautina. Þar er mikil umferð norðan og vestan, auk Reykvíkinga. Er því sjálfsagt, að frv. þetta nái fram að ganga.

Jeg hefi ekki viljað tefja mál þetta með því að koma með brtt. um, að Holtavegurinn verði tekinn upp í frv., en þar sem vegurinn er nú í endurbyggingu, verður það heldur að bíða þar til lögin verða endurskoðuð, en jeg tel þá sjálfsagt, að Holtavegurinn verði tekinn upp, enda er það álit vegamálastjóra, að þessi vegur verði sá næsti, er ríkissjóður taki við viðhaldi á.

Þá er brtt. á þskj. 536, frá háttv. 2 þm. S.-M. (SHK), um að ljetta líka af viðhaldi á brautinni frá Reyðarfirði til Egilsstaða. Nefndin er í sjálfu sjer ekki á móti þessu og hefir óbundin atkvæði um till. En jeg get þó ekki verið með till., vegna þess að jeg vil ekki tefja málið. Jeg tel rjett, að þetta bíði endurskoðunarinnar og gangi sama yfir það og aðrar flutningabrautir.