04.05.1923
Efri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

93. mál, vegir

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Á þskj. 376 eru til teknar 2 flutningabrautir, sem lagt er til, að ríkissjóður kosti. Um fyrri brautina. Reykjavík — Þjórsárbrú, er það að segja, að það munu allir vera á þeirri skoðun, að rjettmætt sje, að ríkissjóður kosti þá braut. Hún kemur hjeraðsbúum í heild sinni að tiltölulega litlum notum, en það mætti með nokkrum rjetti segja, að hún væri miklu fremur fyrir Reykjavík. Hygg jeg því, að það sje tvímælalaust rjett, að sú braut komi á ríkissjóð. Aftur á móti er eigi hægt að segja hið sama um brautina frá Borgarnesi að Haugum. Sú braut er að mestu leyti fyrir hjeraðsbúa eina, enda byrjun á braut, sem nú er komin fram í Reykholtsdal og inn í Hálsasveit. En um þá braut er þó svo mikil umferð, að jeg verð einnig að telja það sanngjarnt, að hún sje tekin á ríkissjóð. Þá hefir komið fram þriðja brtt., frá háttv. 2. þm. S.-M. (SHK), um viðhald á flutningsbrautinni frá Reyðarfirði til Egilsstaða að nokkru leyti. Jeg skal taka það fram, að jeg er ókunnugur á þessum slóðum og veit eigi, hversu mikið af flutningabrautinni er hjer um að ræða, og jeg hefi því miður eigi haft tækifæri til að bera mig saman við vegamálastjóra í þessu efni. En það veit jeg þó, að hvorki þessi braut nje Borgarnesbrautin þola neinn samanburð við Þjórsárbrautina hvað snertir það, að taka þær upp á ríkissjóð. Mun braut sú, er háttv. 2. þm. S.-M. hefir komið með till. um, vera nokkuð hliðstæð Holtaveginum, en það hefir eigi verið farið fram á það enn, að hann væri tekinn upp á arma ríkissjóðs. Er það rjett, eins og háttv 2. þm. Rang. (GGuðf) tók fram, að Holtavegurinn og þessi braut standa líkt að vígi. Annars er það meiningin að taka alt vegamálið til gagngerðrar endurskoðunar fyrir næsta þing. Vegamálastjóri hefir látið uppi það álit sitt, að slík endurskoðun væri nauðsynleg, og er það ætlunin, að hann semji nýtt frv., sem lagt verði fyrir þingið. Af því að mál þetta er eigi rannsakað sem skyldi, þá legg jeg til, að málinu verði frestað og háttv. þm. taki till. sína aftur nú, í trausti þess að gagngerð endurskoðun fari fram á lögunum fyrir næsta þing, og að óskir hjeraðsbúa verði þá uppfyltar að nokkru eða öllu leyti.