04.05.1923
Efri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

93. mál, vegir

Jón Magnússon:

Það var eiginlega ekkert verulegt, sem jeg hefi við það að bæta, sem háttv. frsm. (GGuðf) tók fram. Nefndin var sannfærð um það, að eigi væri rjett gagnvart öðrum landshlutum að taka upp á ríkissjóð viðhald að öllu leyti á þeim 2 flutningsbrautum, sem um er að ræða, nema viðhaldinu af öðrum flutningsbrautum væri ljett af sýslufjelögunum að miklu eða öllu. Er það eigi rjett, sem hæstv. atvrh. (KIJ) sagði, að flutningsbrautin austur væri hjeraðsbúum til lítilla nota. Það er alkunna, að þeir, sem þar eystra eiga heima, nota þennan veg mjög mikið og að umferðin er mjög mikil af hjeraðsbúum, og munur sá, er hæstv. ráðh. (KIJ) vildi gera á umræddum tveim brautum, er alls eigi rjettur, sennilega þvert á móti, því að Borgarfjarðarbrautin er sennilega notuð tiltölulega meira (til bílferða) af Reykvíkingum en Flóabrautin.

Annars ætla jeg mjer ekki að fara að deila frekar um þetta atriði, en skal aðeins geta þess, að nefndin viðurkendi nauðsynlegt, að ríkið tæki viðhaldið á veginum austur, og áleit, að jafnvel ætti að fara lengra og taka Holtaveginn með, enda hefir vegamálastjóri skýrt samgöngumálanefndum í báðum deildum frá því, að það væri óhjákvæmilegt. En nefndin í heild vildi samt eigi, að þessu frv. yrði stofnað í hættu með því að breyta því. Jeg skal taka það fram, af því að jeg er kunnugur í Múlasýslu, að jeg álít rjett að taka þann kafla, sem háttv. 2. þm. S -M. (SHK) fer fram á. upp á ríkissjóð, og jeg mun því greiða þeirri till. atkvæði mitt. En ef til vill getur háttv. 2. þm. S.-M. látið sjer nægja loforð hæstv. stjórnar, um að flutningabrautin verði tekin upp á ríkissjóð við endurskoðun vegalaganna. Við þessa lofuðu endurskoðun býst jeg við, að eigi sje um annað að gera en að taka viðhald allra flutningabrauta á ríkissjóð.