04.05.1923
Efri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

93. mál, vegir

Jónas Jónsson:

Jeg mundi eigi hafa tekið til máls, ef málið hefði eigi verið flækt með því að taka till. háttv. 2. þm. S.-M. upp aftur. Jeg er samdóma vegamálastjóra um það, að nauðsynlegt sje, að landssjóður taki að sjer viðhald veganna. Það er enginn vafi á því, að öll sanngirni mælir með því, að brautinni frá Reykjavík til Þjórsár verði haldið við á landssjóðs kostnað. Um braut þessa fara um 200–250 bifreiðar á sumri, og stundum um vetur, og er hún því sú braut, sem einna erfiðast væri að láta hvíla á hjeraðsmönnum einum. Það má fullyrða, að ef Suðurlandsbrautin hvíldi eigi svo þungt á hjeraðsbúum, þá mundu eigi hafa verið umr. um þetta hjer í dag. Hinar brautirnar, sem nefndar hafa verið í þessu sambandi, halda hver annari í skák. En þó held jeg, að mest sanngirni mæli með því, að landið taki að sjer viðhald Fagradalsvegarins. Jeg á því erfitt með að greiða atkvæði á móti till. hv. 2. þm. S.-M. En þar sem útlit er fyrir, að þá komi fleiri brautir á eftir og að frv. dagi við það uppi í hv. Nd. og verði orsök til nýrrar deilu á næsta þingi, þá held jeg, að þeir, sem eru hlyntir Fagradalsveginum, geri málinu ógagn með því að greiða atkvæði með till. nú.