14.03.1923
Neðri deild: 20. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

65. mál, lífeyrissjóður barnakennara og ekkna þeirra

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. er borið fram samkvæmt tilmælum fræðslumálastjóra, vegna þeirrar breytingar, sem varð á um styrktarsjóð barnakennara, er hann hætti að starfa, er lögin um lífeyrissjóð barnakennara gengu í gildi 1921 og styrktarsjóður barnakennara var lagður í lífeyrissjóðinn. En þá var ekki um leið sjeð um það, er lífeyrislögin gengu í gildi, að þeim barnakennurum, sem hætt höfðu að starfa samtímis og lífeyrislögin komu í gildi og rjett áttu til styrks úr styrktarsjóði barnakennara samkvæmt eldri lögunum, yrði sjeð fyrir hæfilegum lífeyri. Kemur þetta allhart niður á nokkrum fátækum barnakennurum. einkum þeim, er hafa orðið að láta af störfum sínum vegna eli eða vanheilsu: er þetta frv. því fram komið til að bæta úr þessu misrjetti, og á það því að ná bæði til þeirra, er hætt hafa starfi sínu um það bil, sem lífeyrissjóðslögin gengu í gildi og rjett áttu til styrks úr styrktarsjóði barnakennara samkvæmt eldri lögunum, svo og enn fremur til þeirra, sem rjett eiga til lífeyris úr hinum nýja sjóði og hinum gamla, en svo lítillar fjárhæðar, að óviðunandi er. Jeg get ekki skilið, að háttv. deild hafi neitt sjerstakt að athuga við frv. þetta, og það er fyrir það girt í þessu lagafrumvarpi, að farið verði að bruðla með fje sjóðsins, þar sem það er undir samþykki fjármálaráðherra komið, hversu hár lífeyririnn er, og hann á að ákveðast eftir þörfum umsækjanda og þoli sjóðsins. Tel jeg og fullvíst, samkvæmt þar um fengnum upplýsingum um hag lífeyrissjóðsins, að sjóðurinn þolir vel þann byrðarauka, sem af þessu frv. leiðir.

Vænti jeg því, að hv. deild taki frv. þessu vel og að það verði greiðlega samþykt til 2. umr. og fái síðan samþykki háttv. deildar til að verða að lögum, og fjölyrði jeg svo ekki um þetta mál.