20.02.1923
Efri deild: 3. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

9. mál, vatnalög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Þetta frv. er stutt á pappírnum, en er í raun og veru stór bálkur. Stjórninni þótti það rjettara, eins og fyrv. stjórn, að leggja ekki í þann kostnað að prenta frv. af nýju. Þetta frv. er enginn nýr gestur; það hefir verið hjer á döfinni á 4 þingum án þess að komast mikið lengra áfram en í upphafi. Þessi mál, — jeg tek hjer bæði frv. um þetta efni, sem á dagskrá eru í einu, — hafa altaf verið til umr. í háttv. Nd., en eru þessari háttv. deild að mestu ókunnug, og þess vegna taldi jeg rjett að lofa henni að hafa þau til meðferðar nú. Jeg geri mjer samt ekki mikla von um, að frv. nái hjer endanlegum úrslitum, þó að jeg teldi það æskilegast; en hins vegar vona jeg, að þessi háttv. deild sýni málinu betri skil en háttv. Nd. í fyrra. Nefnd sú, sem þar var í það skipuð, klofnaði þegar í stað um gamla deiluefnið, eignarrjett á fossum og vatnsföllum. Jeg vil engu spá um, hvort eins verður hjer eða ekki, en jeg vona, að háttv. deild sýni málinu alúð.

Í háttv. Nd. var kosin sjerstök nefnd í fyrra til þess að íhuga þessi mál. Jeg veit ekki, hvort mönnum sýnist svo hjer. Jeg vil enga till. gera um það atriði, en heppilegast teldi jeg, að þessum frv. yrði vísað til allsherjarnefndar.