05.04.1923
Efri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

9. mál, vatnalög

Einar Árnason:

Jeg mintist á örfá atriði þessa máls við 2. umr. þess hjer í deildinni, sem jeg vildi, að háttv. allsherjarnefnd tæki til greina. En nú hefi jeg orðið þess var, að hún hefir ekki sjeð sjer fært að taka þau upp. Jeg hefi því flutt 2 brtt., sem eru á þskj. 271.

Hin fyrri er við 1. gr. frv. og gengur í þá átt, að skýra betur, hvað sje almenningur í vötnum. Jeg skildi háttv. frsm. svo, að nefndin væri hlynt þessari tillögu, og því tel jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um hana, en vænti, að háttv. deild taki henni vel.

Önnur brtt. er við e-lið 7. gr., og lít jeg svo á, að þar sje um efnisbreytingu að ræða. Má því vel vera, að menn verði ekki sammála um hana.

Því er slegið föstu í þessu frv., að landeigendur eigi að hafa umráð yfir því vatni, sem rennur í landi þeirra, með þeim takmörkunum, sem í því greinir. En eftir því, sem e-liður 7. gr. er fram settur í frv., er þessi regla brotin. Til þess að gera ljósa grein fyrir því, hver áhrif brtt. mín hefir á 7. gr., verð jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp 2. tölulið greinarinnar. Hann hljóðar svo:

1. „Óheimilt er manni, nema sjerstök heimild eða lagaleyfi sje til þess, a. að breyta vatnsbotni, straumstefnu eða vatnsmagni o. s. frv.

b. að gerstífla straumvatn eða gera mannvirki í vatni eða yfir því.

c. að veita jarðvatni úr landi sínu á annars land, ef tjón eða hætta er af því búin eign annars manns eða rjettindum. óhæfilegar tálmanir almennri umferð eða tjón eða hætta að nokkru ráði fyrir hagsmuni almennings.“

Það er því augljóst, eins og greinin er framsett í frv., að þá er landeiganda skilyrðislaust bannað samkvæmt a- og b-lið að gera nokkuð við vatn á hans eigin landi, nema sjerstök lagaheimild komi til í hvert skifti, þrátt fyrir það, þó að breytingin á vatninu geri engum mein. Eftir því ætti mönnum að vera óheimilt að nota vatn í sínu eigin landi til áveitu, smávirkjunar eða annara gagnlegra hluta, jafnvel þó að vatnið renni aldrei inn í annara land. Þetta er hið mesta ranglæti, enda þori jeg að staðhæfa, að löggjöfin hefir aldrei ætlast til, að það væri svo. Úr þessu á brtt. mín að bæta. Hún tekur aftan af c-lið alt nema fyrstu setninguna, og flytur til orðin: „ef tjón eða hætta „hagsmuni almennings“, svo að þau eiga við alla stafliðina þrjá. Með því er það unnið, að menn geta notfært sjer vatn í sínu eigin landi eftir vild, samkvæmt öllum stafliðunum, ef þess er gætt, að rjettindum annara stafi ekki hætta af því.

Til sönnunar því, að jeg hafi rjett fyrir mjer og að brtt. mín sje nauðsynleg, skal jeg benda háttv. deildarmönnum á vatnalagafrv. bæði meiri og minni hluta fossanefndar frá 1918. Þar er þessu fyrir komið með sama hætti og í brtt. minni. Þá hefi jeg einnig athugað greinargerð minni hl. fossanefndar um þetta atriði. Þar segir meðal annars svo — með leyfi hæstv. forseta: „Eins og greinin ber með sjer, eru umráð landeigandans því aðeins takmörkuð, að tjón geti stafað af ráðstöfunum hans“.

Til frekari fullvissu spurði jeg svo háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um þetta í morgun. Ætla jeg, að hann viti manna best skil á þessu máli, þar sem hann mun vera aðalhöfundur þeirrar eignarrjettarstefnu, sem þetta frumvarp er bygt á. Var hann mjer algerlega sammála um þetta.

Jeg þykist fullviss, að þetta atriði hefir ruglast við uppskrift eða prentun á einhverju stigi málsins, og því sje það komið hjer í þessari mynd í frumvarpinu.

Jeg vænti því, að háttv. deild leiðrjetti þetta með því að samþykkja brtt. mína.