05.04.1923
Efri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

9. mál, vatnalög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg skal fyrst leyfa mjer að fara nokkrum orðum um brtt. þær við frv. þetta. er hjer liggja fyrir. Um brtt. háttv. allshn. hefi jeg eigi mikið að segja: 2 þeirra eru sjálfsagðar, sem sje 1. og 3. brtt. Er það einsætt, að eðlilegra er, eins og 1. brtt. fer fram á, að miða skattinn við fasteignamatsverð en brunabótavirðingu. Hvað snertir 3. brtt., þá leyfi jeg mjer að skírskota til þess, er jeg sagði við 2. umræðu þessa máls. Hinar tvær brtt. eru vafalaust til bóta, eða að minsta kosti meinlausar.

Þá vildi jeg fara nokkrum orðum um brtt. háttv. 2. þm. Eyf. (EÁ) á þskj. 271. Er jeg á sama máli og hv. 4. landsk. þm. um fyrri brtt., sem sje að hún hefði átt betur heima í 4. gr., en þó að brtt. þessi verði samþykt og kunni að reka sig eitthvað á aðrar skilgreiningar í frv., þá er hægt að laga það háttv. Nd. Annars er jeg ekki viss um, að hún reki sig neitt á. Brtt. við 7. gr. kom fyrst fram nú á fundinum, og hefi jeg eigi haft tækifæri til þess að athuga hana.

Jeg skal þá að endingu líka leyfa mjer að fara nokkrum orðum um málið yfirleitt, og þá aðallega víkja máli mínu að ræðu háttv. 4. landsk. þm. Fór hann inn á spursmálið í heild sinni og kvað aðalatriðið vera ágreining meiri og minni hluta fossanefndarinnar um það, hvort eignarrjettur yfir vatni fylgdi landinu að lögum eða eigi, og er það auðvitað alveg rjett.

Hjer er greinilega um tvær stefnur að ræða. Háttv. 4. landsk. þm. (JM) áleit, að munurinn væri ekki mikill í raun og veru, og hægt væri að sameina stefnurnar. En jeg held, að munurinn sje meiri en á pappírnum Hann er praktiskur: og ef svo hefði ekki verið, þá hefði þetta mál ekki átt eins erfitt uppdráttar. Málið var undirbúið af milliþinganefnd og hefir síðan verið þvælt á 4 þingum, en hefir altaf strandað á þessu atriði, og jeg skil ekki, að svo hefði orðið, ef munurinn hefði ekki verið meiri en háttv. þm. (JM) vildi telja. Jeg er sammála háttv. þm. (JM) um eignarrjettinn. Jeg hefi haft tækifæri til þess að rannsaka þetta atriði, og mín skoðun er sú, að eftir gildandi lögum í gegnum aldirnar hafi vatnsrjettindin fylgt landinu. Og mig furðar á því, að nokkur lögfræðingur skuli vera á annari skoðun. Þessi skoðun hefir síðan verið beint viðurkend að Alþingi með lögum 1907. Jeg held, að ástæðan til þess, að meiri hlutinn hjelt fram gagnstæðri skoðun, hafi verið óskin um, að það væru lög, sem þeir vildu að væri lög. Þeir hafi blandað þessu tvennu saman. Og það er eðlilegt, þegar vatnsrjettindin voru orðin dýrmæt og verðmikil, að sú ósk kæmi fram, að ríkið ætti þau. Þessi ósk er eðlileg, en hins vegar má hún ekki brjóta lög á mönnum. En það er samt enginn vafi á því, að ríkið á mikið af vatnsrjettindum, því að það á alla almenninga, og þessi rjettindi á það samkvæmt sömu reglu og landeigeigendur eiga þau á sínu landi.

Þá skýrði háttv. 4. landsk. þm. (JM) frá því, að sá meðalvegur hefði komið fram, að vísa málinu til aðgerða dómstólanna, og hann var því mótfallinn. Jeg er honum sammála þar. Jeg sje enga ástæðu til þess, að þingið reyni að koma af sjer þessari ábyrgð. Mjer finst málið vera ljóst og er sannfærður um, að sá grundvöllur, sem frv. er bygt á, er rjettur. Það væri óviðfeldið, ef skoðun meiri hlutans væri lögð til grundvallar og dómstólarnir úrskurðuðu það síðan á annan veg. Landeigendur mundu eflaust fara í mál við ríkið, og þá vafalaust vinna það.

Þá tók háttv. þm. (JM) sjer nærri vatnsránstalið, en jeg held, að það hafi verið óþarfi af honum, og eins Pjetri heitnum Jónssyni, því að því tali mun nær eingöngu hafa verið beint til meiri hlutans, en ekki til stjórnarinnar. En þó verð jeg að telja, að stjórnin hafi hagað sjer ógætilega, þegar hún valdi prófessor Einar Arnórsson til þess að semja frv. Hann hafði mjög svo haldið fram skoðun meiri hlutans, og hefir líklega verið höfundur hennar. Því var eðlilegt, að litið væri með nokkurri tortryggni á valið. Það hefði verið heppilegra, að mínu áliti, að velja annan lögfræðing, sem var alveg hlutlaus í málinu, og það var hægt að fá fleiri en einn skýran og lærðan lögfræðing. Jeg get t. d. nefnt hæstarjettardómarana Eggert Briem og Lárus H. Bjarnason. Jeg held, að allir hefðu getað borið fult traust til þessara manna, og meira, í þessu tilfelli, en til mannsins, sem valinn var, því hann gat ekki talist óvilhallur.

Jeg vil svo að endingu lýsa yfir ánægju minni yfir því, að málið er komið svo langt, að það fer í dag úr deildinni. Jeg vona, að því auðnist að verða að lögum á þessu þingi, en jeg er dálítið hræddur um það í háttv. Nd., vegna ágreiningsins.