05.04.1923
Efri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

9. mál, vatnalög

Jón Magnússon:

Hæstv. atvrh. (KIJ) sagði, að ef munurinn á skoðunum meiri og minni hluta fossanefndar hefði verið svo lítill, sem jeg hjelt fram í minni ræðu, þá hefðu þessir andstæðu partar brætt sig saman. En svo þarf eigi að vera. Smámunir geta oft valdið hvað mestum deilum. Er þetta því ekki sönnun fyrir því, að mikið hafi borið á milli í raun og veru. Annars sagði jeg ekkert um það, hvort jeg teldi muninn mikinn eða ekki. Jeg sagði aðeins, að því hefði verið haldið fram, að svo væri ekki.

Háttv. 5. landsk. þm. (JJ) hefir mint mig á, hvað munurinn á skoðunum er í raun og veru lítill, en að því get jeg komið síðar, ef jeg lengi ræðu mína.

Hæstv. atvrh. (KIJ) sagði í ræðu sinni, að hann ætlaði ekki að blanda sjer í það mál, hvernig stjórninni hefði tekist að semja frv. Til þess var heldur engin ástæða fyrir hann, en hann gerði það þó. Jeg skil ekki þann hugsunarhátt, sem kom fram, að lögfræðingur geti ekki samið lög, ef hann er ekki sjálfur samþykkur grundvallarskoðun þeirra. Þetta kemur þó oft fyrir. T. d. verða nefndir að semja lög, eftir því sem fyrir þær hefir verið lagt, án þess að hægt sje að ætlast til, að þær sjeu ávalt að öllu leyti samþykkar þeim skoðunum, er þau byggjast á.

Hver einasti lögfræðingur á að geta samið frumvarp, er sje samkvæmt ákveðinni stefnu, án tillits til þess, hverjar skoðanir hann hefir sjálfur á henni.

Það er rjett, sem hæstv. atvrh. (KIJ) tók fram, að okkur greinir ekkert á um eignarrjettarspurninguna. Við erum þar sammála, bæði hvað snertir hina rjettarlegu og sögulegu hlið málsins. Enda tók hann ekkert fram um það atriði, sem jeg hafði eigi áður haldið fram.

Háttv. 5. landsk. þm. (JJ) var að tala um vatnsrán, en jafnframt að tala um að skattleggja fallvötnin.

Í raun og veru er það heimska ein að tala um vatnsrán. Öll skattalög ganga í raun og veru út á það að taka af mönnum tekjur og eignir þeirra. Á síðari tímum hefir t. a. m. á Englandi verið farið svo langt, að taka af mönnum 3/4 hluta tekna eða meira.

Það er ofurauðvelt, eins og háttv. 5. landsk. þm. (JJ) talar um, að leggja svo háan skatt á vötnin, að eigendur þeirra verði fegnir að láta þau af hendi. En þetta er mesta vatnsrán. Hjer mun hafa verið lagður skattur á eitt fjelag, er átti hjer vatn. En í raun og veru eru ónotuð vötn ekkert verðmæti og ekki hægt að meta þau til verðs.

Þessu marki má auðvitað líka ná á annan hátt, sem sje með því, að sá, sem vill virkja vatn, verður að sækja um leyfi til þess til stjórnarinnar. Er þá hægt að láta hann borga fyrir það leyfi, og má jafnvel setja gjaldið svo hátt, að ekki borgi sig að taka vatnið til virkjunar.

Umtalið um vatnsrán er algerlega vanhugsað, og við þingmenn erum allir í meira og minna mæli ræningjar eftir þeirri kenningum þegar við erum að leggja á skatta.