05.04.1923
Efri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

9. mál, vatnalög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Mjer fanst háttv. 4. landsk. þm. (JM) taka mjer fremur óstint upp það, sem jeg sagði í ræðu minni. Telur hann mig hafa farið móðgandi orðum um aðgerðir fyrverandi stjórnar í málinu. Jeg get samt ekki sjeð, að hægt væri að fara vægari orðum um það en jeg gerði, úr því jeg mintist á það.

Jeg benti á það, að val stjórnarinnar á lögfræðingi til að semja frv. þetta hefði ekki verið heppilegt, og benti jafnframt á aðra mjög merka menn sem heppilegri, þar sem þeir höfðu ekki verið áður við málið riðnir. En þetta er sjálfsagt viðkvæmt kýli, sem jeg skal ekki kreista meira.

Viðvíkjandi því, að lögfræðingar geti undirbúið lög, þó að þeir sjeu ekki samþykkir efni þeirra, þá má vera, að það sje ekki óhugsandi undir vissum kringumstæðum. T. d. eru skrifstofur í stjórnarráðinu látnar undirbúa lagafrv., án þess máske, að skrifstofumennirnir sjeu samþykkir efni þeirra. En það verk er þeim þó erfitt. Miklu hægara er fyrir þá menn að undirbúa lög, sem eru samþykkir efni þeirra. Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun, að þeim, sem býr til lög, er hann sjálfur vildi hafa öðruvísi, verði hætt við að smeygja inn ákvæðum, sem hann vildi sjálfur hafa, eða fella úr atriði, aðrir vildu eigi missa.

Háttv. 4. landsk. þm. (JM) gat þess, að ekkert nýtt hefði komið fram í ræðu minni og að við værum sammála. Þetta er heldur engin furða. En þar sem svo leit út fyrir, að jeg hefði aðeins endurtekið hann, þá myndi jeg geta sannað honum, að svo er ekki, ef jeg hefði tækifæri til að sýna álit mitt í þessu máli, sem er orðið 5 ára gamalt og hefir að geyma hin sömu rök og jeg nú hefi drepið á.