05.04.1923
Efri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

9. mál, vatnalög

Jón Magnússon:

Mjer er vel kunnugt, að hæstv. atvrh. (KIJ) hefir mikið fengist við þetta mál, og jeg er glaður yfir því, að við erum samdóma í því. En jeg get ekki horfið frá því, að mjer fanst það óþarft af honum að fara að blanda sjer í það hróp, sem gert var að fyrv. atvrh., bæði innan þings og utan, út af þessu máli.

Þá er jeg hissa á þeirri kenningu, að lögfræðingi sje eigi hægt að semja frumvarp hvað sem hans eigin skoðunum á því líður. (Atvrh. KlJ: Það er erfitt). Jeg skal þó geta þess, að hv. 5. landsk. þm. (JJ) hefir gert tillögu um, að nefnd gamalla manna sje látin stílfæra lög, sem máske ungir og framgjarnir menn leggja til efnið í. Sýnist það þó eigi liggja nær.

Þá skal jeg enn bæta því við, að það er ný skýring á lánum, ef það, sem taka á, en ekki tekst að ná í, kallast rán. En ef sama eign er tekin með því að skattleggja hana svo hátt, að eigandinn verði feginn að afhenda hana endurgjaldslaust, þá er það ekki kallað rán. Þetta er ný skýring á þessu hugtaki, sem jeg skil ekki, en skal athuga það nánar síðar.