03.05.1923
Neðri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

9. mál, vatnalög

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Það má með sanni segja, að vatnamálið sje gamall gestur á þingi. Það hefir gist hvert þing frá 1917, að einu undanskildu þinginu 1918. Ekkert annað mál hefir verið hjer jafnþaulsætið, ekkert mál jafnþungt í vöfum og vandhæfismikið, enda er meðferð þess orðin dýrari en nokkurs annars máls á þessu tímabili. Jeg hygg, að jeg fari rjett með, þegar jeg giska á, að meðferð þessa máls hafi kostað 90–100 þús. kr. fram að þessu. Það mun ekki misminni hjá mjer, að störf milliþinganefndarinnar og utanför hennar hafi kostað 60–70 þús. kr., og það mun ekki of mikið í lagt, að meta kostnaðinn og alla fyrirhöfn við þetta mál á þeim 5 þingum, sem það hefir legið fyrir. 20 þús. kr. Vitaskuld er þetta mál fyrirferðarmikið og margþætt og margs að gæta við afgreiðslu þess. Svo hefir líka farið í öllum nágrannalöndunum, að svipuð vatnalöggjöf hefir tekið langan tíma. Hjer hefir drátturinn á afgreiðslu þessa máls ekki stafað svo mjög af þeim erfiðleikum, sem þar hafa tafið, því að frá öndverðu höfðum vjer fyrirmyndir í löggjöf nágrannaþjóðanna. Þess vegna gat starfið orðið auðveldara hjer, að styðjast mátti við lög þeirra í þessu efni.

Það, sem valdið hefir mestum drætti, er hinn óheillavænlegi ágreiningur sem kom upp í milliþinganefndinni 1919, þegar hún hafði starfað á annað ár í sátt og samlyndi. Svo sem kunnugt er, var þessi ágreiningur þannig vaxinn, að meiri hluti milliþinganefndarinnar hvarf að því ráði að neita umráðarjetti landeigenda yfir vatni á landi þeirra og synja fyrir, að sá rjettur hefði nokkurn tíma verið lögfestur. Minni hl. hjelt fram hinum alviðurkenda umráða- og eignarrjetti landeigandans, sem hvarvetna kemur fram í allri eldri löggjöf landsins, og bygði hvor nefndarhlutinn á sinni niðurstöðu mjög ólíka lagabálka. Komu þeir báðir fyrir þingið 1919, bornir fram af nefndarhlutunum sjálfum, en hvorugur af stjórninni. Var mjög um þessar stefnur þráttað, en hvorugt frv. náði að ganga fram. Síðan hefir stjórnin borið fram á hverju þingi frv. til vatnalaga og jafnan bygt á stefnu minni hluta milliþinganefndarinnar.

Þótt undarlegt megi virðast, þá er það samt svo, að hvergi á Norðurlöndum hefir komið upp ágreiningur um þetta efni, nema hjer á Íslandi. Hvergi í nágrannalöndunum hefir nokkur ágreiningur var um það, að landeigandi ætti umráðarjett yfir vatni á landi sínu. Og ágreiningurinn hjer er því eftirtektarverðari, sem engin Norðurlandaþjóð önnur hefir jafnskýlaus ákvæði um rjett landeiganda til vatnsins í fornum lögum sem vjer Íslendingar. Þessi fyrirmæli hinna fornu laga vefengdi meiri hl. milliþinganefndarinnar og hártogaði á ýmsa vegu. Þó veit hver maður, sem kominn er til vits og ára, að þessi eignarumráð landeiganda að vatninu eru hliðstæð eignarumráðum yfir landinu, en vitanlega takmörkuð, eins og þau.

Ótvíræðar bendingar um lögfestingu þessa rjettar má finna í Grágás. kap 191. 208. 422. 438. 439 og víðar. Hvarvetna er þar talað um vatnið, ár, læki og stöðuvötn eins og eign landeiganda, svo sem eðlilegt er, því að landið námu landnámsmenn eins og það var frá hendi náttúrunnar, með gögnum og gœðum, eins og enn er kveðið að orði, og skildu vitanlega ekkert undan, hvorki handa ríkinu, sem þá var aðeins óljóst hugtak hjá þeim, eða nokkrum öðrum. Þetta var því eðlilegra nám á vatnsrjettindunum, sem þau voru þá í föðurlandi þeirra, Noregi, eign landeiganda. Grágás er nú að vísu úr lögum numin, eða var með Járnsíðu og síðar með Jónsbók á 13. öld, en ákvæðin um vatnsrjettindin koma aftur fram í Jónsbók með líkum hætti og í Grágás, og jafnvel ákveðnari. Má þar finna þau í 24. og 26. kap., en ljósust þó í 56. kap. Ákvæði hans gilda enn í dag, og eru þess vegna þau gildandi vatnalög. Vil jeg ekki eyða tíma í að lesa upp úr þeim nema fáar setningar. Þar stendur meðal annars:

„Hverr maðr á vatn ok veiðistöð fyrir sinni jörðu ok á sem at fornu hefir verit“ „Nú ef á brýtr af annars þeira jörð, þá á sá á, er jörð átti ....

En ef hon brýtr meirr, þá á sá, er jörð átti, bæði á ok granda“ Engi skal fara í annars á, nema hann vili þeira veiða, er ána á.“

Þessar setningar og margar aðrar af sama tægi sýna, hvernig þessu var háttað á 13. öld. Á þessu hefir altaf verið bygt. Á þessu var bygt 1905, er lög voru sett um Glerá — lögnámslögin. — Á þessu var bygt sama ár, er lög voru sett um forkaupsrjett leiguliða að fossum í landi þeirra, er gengju kaupum og sölum. Á þessu var bygt árið 1907, er sett voru svo nefnd fossalög, eða lög um takmörkun á eignar- og umráðarjetti á fossum o fl., sem áttu að fyrirgirða, að fossarnir lentu í höndum útlendinga. Í 7. gr. þeirra er það fram tekið, að ef kona eigi foss (þ. e. vatnsrjettindi) og giftist manni, sem eigi hefir rjett til að eiga fossa hjer á landi, þá skuli fossinn sjereign hennar. 12. gr. sömu laga sýnir einnig, að Alþingi hafði þá þennan skilning á ákvæðum Jónsbókar. Þar er talað um það, að sá, er eigi fossa, skuli skyldur að láta þá af hendi. er hið opinbera þarfnist þess. gegn fullu endurgjaldi. Á þessu bygði þingið 1913, er það gaf út vatnsveitulögin. Þar er t. d. sagt, í 3. gr., að ef áveituvatn sje tekið úr landi annars manns, þá skuli koma fyrir það endurgjald og bætur eftir mati. Yfirleitt má alstaðar sjá það, að í síðari löggjöf hefir jafnan verið bygt á vatnalögum Jónsbókar.

Ávalt og alstaðar hefir stefnan verið sú sama, og ætíð viðurkend umráð landeiganda yfir vatninu á landi hans, eins og húseiganda yfir húsi eða skipseiganda yfir skipi. En í öllum síðari tíma lögum er þessi rjettur meira og minna takmarkaður að eðlilegum hætti, og löglega þó, vegna þarfa fjelagsheildarinnar.

Aldrei hefir nokkur maður á þessu landi vefengt þennan rjett landeiganda, fyr en á því herrans ári 1919. Hinir færustu lagamenn síðustu aldar, svo sem Vilhjálmur Finsen og Jón Pjetursson, töldu hann óyggjandi. Um þetta gamla ágreiningsatriði milliþinganefndanna virðist annars lítil þörf að ræða, því að bæði er það þingheimi kunnugt, og svo er öldungis víst, að allur þorri landsmanna telur stefnu meiri hluta milliþinganefndarinnar fjarstæðu og lögleysu. Auk þess er það víst, að sjálfir meirihlutamennirnir 1919 voru gersamlega sammála minni hlutanum um eignarrjett að vatni meira en árlangt áður en nefndin klofnaði, og svo hitt, að stefna meiri hl. var tekin upp — eftir því, sem þeir sögðu, og segja enn — af praktiskum ástæðum, eða af einskonar vafasamri umhyggju fyrir þjóðarhag. En þá þótti líka nauðsynlegt að afneita þeim fornu, lagasetningum, því ella var stefnan orðin að beinni árás á 63. gr. stjórnarskrárinnar.

Um þetta mál hafa nú fjallað margir lögfræðingar utan þings og innan, auk þingnefnda á undanförnum 4 þingum, og veit jeg ekki til þess, að nokkur lögfræðingur, að undanteknum ráðunaut milliþinganefndarinnar, hafi fallist á kenningu meiri hl. um það, að vatnsrjettindin hefðu aldrei verið lögfest landeigendum til handa. 7 lögfræðingar eiga nú sæti hjer á Alþingi, og veit jeg ekki betur en að þeir líti allir á þetta atriði eins og jeg lít á það. Það er því þýðingarlaust að halda því fram, svo sem oft hefir gert verið, að kenningin um eignarumráð landeiganda á vatni sje sjerviska úr mjer, eða minni hl. milliþinganefndarinnar, og tekin upp af eigingjörnum hvötum. Votturinn er harla ljós í þessu efni, því að öll þau 4 skifti, sem stjórnin hefir borið vatnamálið fram, hefir hún bygt það á stefnu minni hl. milliþinganefndarinnar og viðurkenningu eignarumráða landeiganda. Engin stjórn og enginn ráðh., sem setið hefir að völdum frá 1917, hefir nokkurn tíma treyst sjer til að bera fram andstæðu stefnuna.

Þegar litið er á undirbúning þessa máls, eins og honum er nú komið, þá má segja, að hann sje talsvert ítarlegur. Málið hefir gengið í gegnum hvern hreinsunareldinn af öðrum hjá stjórn og þingnefndum og verið samræmt hliðstæðri löggjöf nágrannalandanna. En allar nágrannaþjóðir vorar hafa skipað vatnamálum sínum á líkan hátt og hjer er lagt til í frv. og allar hafa þær viðurkent og virt rjett landeigandans, en að sjálfsögðu takmarkað hann misjafnlega mikið eftir þjóðarþörf, vatnsskorti, vatnsgnægð og öðrum ástæðum Allar reisa þær skorður við of miklu einræði landeigandans með sjerleyfislagaákvæðum, þar sem hugsast gat, að það kæmi of nærri hagsmunum fjelagsheildarinnar.

Það verður því ekki með rökum sagt, að frv. þessu hafi verið flaustrað saman eða að undirbúningur þess sje ónógur. Andstæðurnar, sem um það hafa barist, hafa líka átt sinn þátt í því að skýra efnið, að minsta kosti aðalágreiningsatriðin.

Háttv. Ed. hefir nú afgr. frv. hingað fyrir tæpum 4 vikum og gert á því talsverðar breytingar, alls um 40. Allmargar af þessum breytingum eru teknar frá nefndarhlutum vatnanefndarinnar 1921, en hinar flestar komnar fram við meðferð málsins í Ed. Allar eru breytingar þessar til bóta, og er frv. þess vegna miklu aðgengilegra en áður, enda má heita, að deildin hafi afgreitt málið einróma eins og það liggur nú fyrir. Í því út af fyrir sig liggur mikil trygging fyrir vönduðum og vel athuguðum undirbúningi þess, en mestu trygginguna tel jeg þó liggja í því, að háttv. 4. landsk. þm. (JM) hefir lagt svo mikla alúð við undirbúninginn og unnið svo kappsamlega að honum. Hann er, eins og menn vita, manna kunnugastur málinu fyr og síðar, og auk þess sá maður, sem enginn kunnugur efar, að hafi til að bera sjerstaka glöggskygni um lögfræðileg efni.

Vjer, sem nú erum meirihl.menn vatnanefndar og berum fram álit vort á þskj. 436, álítum að vísu, að ýms ákvæði frv. mættu betur fara, ef breytt væri, og að ýmislegt fleira hefði mátt fella úr frv. en felt hefir verið, en þær breytingar teljum vjer ekki svo mikilvægar, að vjer þeirra vegna viljum stofna frv. í hættu eða láta það fjara uppi. Þess vegna leggjum vjer eindregið til, að það verði samþykt óbreytt eins og það kom frá háttv. Ed. Þess er alls ekki að vænta, að jafnyfirgripsmikill lagabálkur sem vatnalögin eru, sjeu samin svo, að gallalaus verði, meðan reynsluna vantar um mörg ákvæði þeirra. Þess vegna verður að gera ráð fyrir því, að smíðalýti þau, sem á frv. kunna að vera, verði lagfærð síðar, þegar reynslan fer að skera úr.

Frv. er að öðrum þræði samdráttur gildandi laga um vatnsrjettindi og notkun vatns, en að hinum nýmæli um þessa hluti, og fer öllu meira fyrir nýmælunum. Þau eru að mestu tekin eftir hliðstæðum lögum nágrannaþjóðanna. 1. 2. 3. og 4. kafla eru saman dregin og lítið breytt eldri ákvæði um vatnsrjettindi, um vatnsnotkun til heimila og um vatnsveitur. 5. kaflinn, um orkunot, er að mestu nýmæli. 6. kaflinn, um vatnsmiðlun, er að öllu leyti nýr og sniðinn eftir norskum lögum. Líkt er að segja um 8. (þurkun lands), 9. (um óhreinkun vatns), 11. (um vatnafjelög). 14. (um vatnsvirki), 15. (um skaðabætur), 16. (um meðferð vatnamála) og 17. (um stjórn vatnamála). Mjög lítið af efni þessara kafla hefir áður verið til hjer í lögum, og verður um margt af þeim nýmælum eigi sagt með vissu, hve vel þau eiga við, fyr en reynslan fer að tala.

Aðalatriðið hjer er þó það, að frv. er bygt á gildandi landsrjetti og á sjer öflugan stuðning í rjettarmeðvitund þjóðarinnar. Að vísu gerir frv. óvenjumiklar takmarkanir á umráðarjetti vatnseiganda hvarvetna þar, sem hagsmunir heildarinnar krefjast þess, en að því leyti er það hliðstætt löggjöf annara germanskra þjóða: en þær viðurkenna allar, að meira eða minna leyti, eignarumráð landeiganda, og Norðurlandaþjóðirnar hafa þó allra víðtækastan rjettinn. Einnig er frv. að þessu leyti hliðstætt landsins eigin löggjöf um takmarkanir á eignarrjetti þar, sem þjóðarþörfin krefst þess, svo sem um skóg, sem enginn má höggva, þótt eigi, nema eftir ákveðnum reglum og undir opinberu eftirliti, og silfurberg, sem enginn má versla með, þótt námur eigi, nema við ríkið, og fleira mætti nefna.

Yfirleitt byggir frv. á sama grundvelli og grannþjóðirnar hafa gert. Það ætlar ríkinu með drottinvaldi sínu öll yfirtökin, ef hagsmunir vatnseiganda og almennings rekast á, og gengur jafnvel svo langt (sjá 65. gr.) að gera einstökum manni kleift, með stjórnarleyfi, að taka vatnsrjettindi annars manns lögnámi. En það lætur þó ósnertan insta kjarna eignarrjettarins, og rekur sig því ekki á 63. gr. stjórnarskrárinnar eða gildandi lög, og kemur því ekki af stað neinni byltingu í þjóðfjelaginu. Hins vegar er það nauðsynlegur undirbúningur og ómissandi fyrir sjerleyfislöggjöf þá, sem á eftir kemur og á að vera undirstaða að skynsamlegri þjóðnýtingu vatnsins og jafnframt vörn gegn útlendri ásælni og gerræði einstakra manna eða fjelaga, sem vötn kynnu að nota í stórum stíl. Vatnalöggjöfin, eins og hún er nú hjá oss, er öll í molum, ósamstæð og að mörgu úrelt, en auk þess á sumum sviðum svo einhliða og fábreytt, að óumflýjanlegt er að koma henni í samstætt kerfi, svo sem hjer liggur nú fyrir. Hefðu vatnalög verið hjer til um síðustu aldamót, og sjerleyfislög samræmileg við þau, þá hefði aldrei svo farið um fossasölu til útlanda sem fór. Útlendingarnir keyptu fossana í þeirri von að geta hagnýtt þá kvaðalaust, í skjóli lagaleysisins hjer, til stóriðju. En svo brá þessum kauplæðingum við, þegar milliþinganefndin birti frv. sín til sjerleyfislaga 1919, að allri fossasölu var jafnsnemma lokið.

Jeg vil ekki tefja tímann að óþörfu með mjög langri ræðu, og skal nú aðeins, áður en jeg lýk máli mínu, víkja lítið eitt að nál. háttv. minni hl. og brtt.

Jeg verð um það að segja, að jeg hefi ekki sjeð öllu kyndugra plagg en þskj. 486. Í gegnum það alt gengur einhver gremjuþrungin vandlætingarsemi yfir einhverjum sjálfstæðis- eða rjettindamissi, sem ríkið verði fyrir, ef frv. verði samþykt, og er líkast því, sem landráð væru á ferðinni. Er svo að sjá af nál. háttv minni hluta, sem hann sje sendiboði æðri stjórnar, kominn fram til að aftra þessum ósóma og gera hina síðustu tilraun til þess að forða landinu frá þessum voða! Eru þessi ólíkindalæti háttv. minni hluta svo gagnsæ og innantóm, að engan eiga að geta blekt. Þeir látast ætla að gera þá ítrustu tilraun til að vernda mikilsverða þjóðarhagsmuni gegn hættulegri ásælni og lögleysu. Hverjir eru þeir þjóðarhagsmunir, sem stofnað er í hættu með frv. Ef nú ætti að meta þjóðarhagsmuni annars vegar eftir frv., en hins vegar eftir gildandi lögum, þá eru þeir óneitanlega miklu miður trygðir nú en þeir verða eftir frv. Því að ef háttv. minni hluti á við, að hætta stafi af því, hve víðtækur sje gerður umráðarjettur landeiganda í frv., þá er hann þó miklu víðtækari eftir gildandi lögum. Nú er hann sá, að ríkið getur ekki, þótt þörf sje á, hnekt honum nema með sjerstökum lögum um lögnám, sbr. Glerárlögin, en í frv. er heimilaður lögnámsrjettur alment fyrir ríkið. hjeruð og einstaka menn. nær takmarkalaust. Háttv. minni hluti hefir því alger hausavíxl á hlutunum, með því að rjettur landeigandans er miklu takmarkaðri eftir frv. en hann er nú að lögum.

Háttv. minni hluti segir meðal annars, að með þessu frv. sje alerlendum og hálferlendum fjelögum gefinn víðtækari rjettur en áður hefir verið. Hjer eru höfð algerð endaskifti á sannleikanum, og getur það eigi verið óviljaverk. Skal jeg þar vísa í 49. gr. frv., máli mínu til sönnunar. Eftir þeirri grein getur enginn eigandi vatnsrjettinda án leyfis ráðherra virkjað meira en 500 hestöfl úr vatni því, er hann ræður yfir. Þótt hann jafnvel ætti vatnsrjettindi í allri Þjórsá, þá væri honum, eftir þessu frv., ekki heimilt að nota til orkunýtingar meira en ein 500 hestöfl, nema með leyfi ríkisstjórnarinnar eða jafnvel Alþingis. Má öllum auðsætt vera, hvernig þetta ákvæði frv. hittir útlend og innlend fossafjelög, sem nú geta að lögum hagnýtt svo mikið af vatnsorkunni, sem þeim sýnist.

Þá segir háttv. minni hluti, að með frv. sje gefin mikil uppörvun til fossaprangs, og engar hömlur á það lagðar. Þetta jafnfjarstætt og fyrri kenningin. Lög nr. 63, 1919, banna útlendingum að eiga fasteignir hjer, og þar á meðal vatnsrjettindi, en hins vegar gerir þetta frv. alla fossasölu torveldari en áður var, með þeim víðtæku takmörkunum, sem þar eru gerðar hvarvetna á eignarumráðum yfir vatni.

Háttv. minni hluti þykist hafa gert oss mjög aðgengileg tilboð um samkomulag í þessu máli og furðar sig allan á því, að vjer skulum ekki hafa tekið þeim. Hver mundi geta skilið þetta eins og alvörutal? Hvernig á að semja um samleið fyrir 2 menn, sem stefna í gagnstæðar áttir? Þess var auðvitað aldrei að vænta, að sameinaðar yrðu þær tvær stefnur í vatnamálinu, að svifta landeiganda umráðum vatnsins og láta hann þó halda þeim. Samningatilraunirnar frá hendi háttv. minni hluta voru aldrei annað og gátu aldrei verið annað en tilraun til að brengla málið og villa heimildir á vatnsrjettindum, til þess að nálgast ögn dauðadæmda stefnu hans.

Allar kenningar háttv. minni hluta um væntanlegt fossabrask með smáfossa, ef frv. verði lögfest, eru hugarburður. Hann veit eins vel og jeg, að allur fjöldinn af smáfossum og minni vatnsföllum er með öllu verðlaus og óútgengilegur, þótt falur væri. Enginn virkjar slík vötn að gamni sínu og enginn kaupir þau til annars en virkjunar. Til þess er notkun smávatna of dýr og erfið. Meginhluti slíkra vatna er í afskektum og strjálbygðum fjallahjeruðum, þar sem þeirra verða engin not, en auk þess eru mörg þeirra óbrúkleg vegna landslags og illrar aðstöðu. Það eina, sem hjer getur verið um að ræða, eru einstöku hentugar fallhæðir í vatnsmiklum þverám, sem nærri liggja þjettbýli eða þorpum. Slík vötn munu þorpin reyna að tryggja sjer, þar sem nokkuð verulegt er við þau, og eigendur þeirra munu oftast tregir til að láta þau af hendi, nema svo sje, að þeir jafnframt geti haft þeirra not. Verslun með slík rjettindi er alls eigi að óttast, öðruvísi en þá til ákveðinnar virkjunar þegar í stað eða fljótlega. Þau hafa ekkert slíkt seiðmagn sem stóru vatnsföllin, sem keypt voru með von um að geta bygt á þeim stóriðju, meðan henni voru engin takmörk sett með vatnalögum eða sjerleyfislögum

Allar bollaleggingar háttv. minni hl. um þetta væntanlega fossabrall með smávötn er því hreinasti fyrirsláttur og yfirskinsvarúð. Hitt er sanni nær, sem hann segir um verðmun á hagstæðri og óhagstæðri vatnsorku, en við það er ekkert að athuga fremur en t. d. verðmun á góðri og frjórri lóð og hins vegar grýttri og óhagstæðri lóð.

Háttv. minni hl. fer eigi rjett með í nál. á þskj. 486, þegar hann talar um frv. þetta eins og einsdæmi í löggjöf þjóðanna, eða gefur í skyn, að eignarrjettur á rennanda vatni sje mjög óvíða viðurkendur. Sannleikurinn er sá, að þetta frv. er í öllum aðalatriðum samhljóða vatnalögum Svía, Finna og Norðmanna, en allar þessar þjóðir viðurkenna hiklaust eignarrjett á rennanda vatni, og auk þeirra að meira eða minna leyti allar Evrópuþjóðir norðan Alpafjalla.

Um brtt. háttv. minni hl. á þskj. 487 má í fám orðum segja það, að þær lúta eindregið að því að hverfa við frv. og þeirri gildandi löggjöf um vatnsrjettindi og svifta landeiganda umráðarjettinum, og er það að vísu eðlileg tilraun til að bjarga þeirri gömlu villukenningu þeirri fjelaga. En geta má þó þess, að af þeim 25 brtt., sem þarna eru fluttar, eru 2 sem ekki meiða stefnu frv. eða mundu spilla því, sem sje 1. og 21. till., en hvorug þessi brtt. hefir neina verulega þýðingu, og er því ástæðulaust að hrekja frv. milli deilda þeirra vegna. Með samþykt á hinum öðrum brtt. er stefnt til stjórnarbyltingar í vissum skilningi. stefnt að því að nema úr lögum helgi eignarrjettarins á vissu sviði, stefnt að broti á 63. gr. stjórnarskrárinnar, sem vitanlega verndar jafneindregið eignarrjett að vatnsrjettindum sem að landi því sjálfu, sem vatnsrjettindin eru bundin við.

Háttv. minni hluti ber að vísu fram varatill. við 2. gr. frv., um það, að sami rjettur skuli landi fylgja til vatns sem verið hefir, án þess að tiltaka hann nokkru nánar. En svo ætlast hann til, að samþyktar verði brtt. þær, sem á eftir fara og sem færa þá frv. að öðru leyti í form og anda þeirrar stefnu um einkayfiráð ríkisins, sem hann heldur fram. Þetta má enginn láta villa sjer sýn. Þetta yrði hreinn vanskapnaður á lögunum og 2. gr. yrði í beinni mótsögn við lögin að öðru leyti. Og þá mundi verða uppfylt sú ósk háttv. flm. að koma lögunum til dómstólanna, til þess að úrskurða það. hvar rjetturinn væri í raun og veru, er hver greinin æpti við annari. Slík lög væru í raun og veru „idiotisk“ og með öllu óframbærileg, en um það virðist háttv. minni hl. ekki hirða, ef hann aðeins getur vilt þær fornu heimildir til vatnsins. — Ákefð hv. minni hl. að koma ágreiningnum í þessu máli undir úrskurð dómstólanna er í raun og veru örþrifaráð. Alþingi hefir aldrei spurt dómstólana leyfis um það, hvort eða hvernig það mætti lög setja. Það hefir eðlilega ætíð ákveðið sjálft efni og form laganna, svo sem sjálfsagt er.

Segja má, að hjer sjeu 2 vegir fyrir hendi. Annar er sá, að afgreiða frv. óbreytt, eins og vjer meirihlutamenn leggjum til og vitandi þess, að með því hefir málið verið leitt til sæmilegra lykta og brautin rudd, svo hægt er að byggja upp viðeigandi sjerleyfislög á landsháttum bygð. Hinn er sá, sem hv minni hl. stefnir að, að brengla alla þessa vatnalöggjöf með breytingartillögum, sem leiða til þess, að málið gengur ekki fram að þessu sinni og verður að veltast fyrir þinginu framvegis í óskapnaði þeirrar lögleysu, sem minni hl. stefnan hefir bygt og byggir á.

Öllum verður að vera það ljóst, að breyting á einu atriði eftir till. minni hl., svo sem 2. eða 49. gr., leiðir hugsunarrjett til breytinga í öðrum efnum, því að allar eru breytingartill. minni hl. að svo miklu leyti samræmilegar. Hjer má því engin tilviljun eða teningskast ráða úrslitum, ef sómasamleg niðurstaða á að fást.