03.05.1923
Neðri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

9. mál, vatnalög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Þótt það sje sennilega óþarfi að fara nú að halda langar ræður frá almennu sjónarmiði um þetta mál, þar sem það er þrautrætt áður, einkum hjer í deildinni, þá verð jeg þó með nokkrum orðum að skýra afstöðu mína til þess, þar eð það hefir orðið mitt hlutskifti að leggja þetta frv. fyrir þingið.

Aðalágreiningurinn í þessu máli er sá, að sumir, þar á meðal háttv. meiri hluti vatnamálanefndar hjer í deildinni, halda því fram, að landeigendur eigi vatnið, sem rennur um landareign þeirra, en háttv. minni hl. nefndarinnar heldur því fram, að ríkið eigi vatnið, en hins vegar viðurkennir hann, að landeigendur eigi botninn og hafi, innan vissra takmarka, umráðarjett yfir vatninu, svo það virðist nú ekki mikið bera á milli, en jeg mun víkja að því síðar.

Jeg held, að það sje ekki ofmælt, þó jeg fullyrði, að engum manni í landinu hafi dottið annað í hug fyrir 1919 en að landeigandi ætti vatnið í ánni sinni eða læknum sínum, og þá líka orkuna, sem í vatninu lægi. Jeg hygg, að sannfæringin um þetta hafi verið rótgróin í meðvitund almennings alt frá byggingu landsins.

Grundvöllurinn fyrir þessari skoðun finst líka, að minni hyggju, alveg viss í fornum lögum, en meðan fossarnir voru lítils virði, var ekki von, að menn rannsökuðu eignarspurninguna sjerstaklega, heldur ljetu sjer nægja sannfæringuna um þennan rjett. En þegar það sást, að fossarnir fóru að verða verðmiklir, eins og komið hefir á daginn síðari árin, þá var eðlilegt, að vaknaði spurningin um það, hvort þessi rjettarmeðvitund manna væri rjett, hvort hún væri annað en vanahugsun, og hvort bæði eldri lög og núgildandi lög væru ekki bygð á röngum grundvelli, hvort útfallið yrði ekki annað, ef málið væri tekið upp til rannsóknar á vísindalegum grundvelli. Og þetta hefir verið gert og komist að þeirri niðurstöðu, að svo væri, að rennandi vatn væri þess eðlis, að það gæti ekki verið eignarrjetti undirorpið. En þessi skoðun kemur í bága við skýlaus fyrirmæli laga, bæði forn og ný.

Þegar fyrstu landnámsmenn komu hingað, tóku þeir landið algerlega til eignar, en ekki aðeins til vissra afnota. Var það líka eðlilegt, því að það var í fullu samræmi við þær venjur og löggjöf, er þeir áður höfðu búið við. Er hægt að vitna í fornlaganna í þessu efni, bæði til Grágásar og Jónsbókar, um að þessi skilningur sje rjettur. Það er að vísu rjett hjá hv. minni hluta, að ýms sagnorð í íslensku hafa margvíslegar þýðingar, þar á meðal t. a. m. sögnin að „eiga“. En almenningur skilur vel, hvaða merkingu orðið hefir í þessari og þessari merkingu. Hann skilur vel, að það er alt önnur merking í því að „eiga“ hlut eða „eiga“ samleið með einhverjum. Eru fjöldamörg ákvæði bæði í Grágás og Jónsbók, sem sýna það ótvírætt, að með orðinu „eiga“ er átt við eignarrjett og ekkert annað, og hafa ekki verið skilin öðruvísi og verða heldur ekki skilin á annan hátt. En þessu er ekki einungis slegið föstu í eldri lögum. heldur og nýjum; jeg skal aðeins minna á fossalögin frá 1907. Þau lög tala alveg ótvírætt um eignarrjett að fossum og gera ráð fyrir, að eigendaskifti geti orðið að þeim, þeir geti gengið kaupum og sölum og eigendaskifti geti orðið fyrir nauðungarráðstöfun. Þetta hefir nú líka verið viðurkent af þeim, er halda fram rjetti ríkisins, en þeir bæta því við, að lög þessi sjeu bygð á skökkum grundvelli og misskilningi á fornum lögum, og sjeu því ekki bindandi; en það er algerlega rangt. Jeg skal koma með annað dæmi, enn nýlegra. Á þinginu 1916–1917 var borin fram þáltill., sem beinlínis gerir ráð fyrir eignarrjetti einstaklinga yfir fossum, sjá einkum niðurlagið, sem hljóðar svo: „þeim, er eigi heyra til neinni ákveðinni jörð“.

Enn má nefna þingsályktunartillöguna frá 1918, er milliþinganefndin var skipuð. Þar er gert ráð fyrir, að nefndin rannsaki, hvort ekki væri ástæða til, að landið „keypti fossa“. Það þarf ekki að kaupa það, sem maður á.

Það var því ekki að furða, þótt mörgum brygði í brún, þegar kenningin 1919 kom fram. Þar var því haldið fram, að vatnið væri „res nullius“, háð umráðum ríkisins, en landeigendur hefðu aðeins takmarkaðan afnotarjett yfir því til búsþarfa, áveitu eftir þörfum jarðarinnar, og enn fremur til orkunýtingar innan vissra takmarka. Enn fremur, að eldri lög bæri að skilja svo, að þar væri gert ráð fyrir eignarrjetti ríkisins, og þau nýrri lög, er ákvæðu annað, væru bygð á misskilningi, og væri því ekkert á þeim byggjandi. En eins og jeg hefi þegar tekið fram, eru gömlu lögin alveg skýr, að mínu áliti, og veita einstaklingunum fullan eignarrjett að vatni, en þó svo væri, að eitthvað mætti draga út úr yngri lögum gegn fullum eignarrjetti, sem hæpið er, þá gilda engin sjerlög gagnvart almennum gildandi lögum, svo sem fossalögunum. Því hefir verið haldið fram, að athugasemdirnar við fossalögin væru bygðar á misskilningi um eignarrjettinn, en jeg, sem átti nokkurn þátt í undirbúningi þessara laga, neita því alveg, að svo hafi verið. Þau voru grundvölluð á þeirri almennu meðvitund og sannfæringu, að hver landeigandi eigi eins straumvatnið í sjálfri ánni sem botninn sjálfan.

Þegar þessar mismunandi skoðanir eru bornar saman, þá sýnist nú ágreiningurinn ekki vera svo ýkjamikill við fyrstu sýn, enda var því haldið fram í háttv. Ed., að munurinn væri aðeins „teoretiskur“. En jeg held nú, að munurinn sje meiri. Mundi þessi ágreiningur varla hafa valdið svo miklum töfum málsins sem orðið hefir, ef hann væri ekki annars eðlis og meiri.

Kemur þessi munur glögt fram í einstökum ákvæðum frv., eins og ljóst er, ef menn bera frumvörpin saman. Má líka sjá þetta af nál. minni hl., er heldur því fram, að ef frv. þetta verði samþykt í sambandi við sjerleyfislögin, þá muni það valda miklu tjóni.

Nú sje jeg, að komið hefir fram miðlunartillaga frá háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ), sem hann bar fram á fundi vatnamálanefndar á þinginu í fyrra. Í þessari miðlunartillögu, sem borin er fram sem varabrtt. við 2. gr. frv., er lagt til, að greinin orðist svo: „Landareign hverri fylgir sá rjettur, sem nú er og verið hefir, til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem er á henni“. Jeg vissi ekkert um þessa till. fyrri en jeg las hana í nefndarálitinu. En jeg fæ ekki sjeð, þó að þessi varabrtt. minni hl. verði samþykt, að nokkuð vinnist við hana; hún þokar ekki hóti nær takmarkinu. Hún segir: Landareign hverri fylgir sá rjettur, sem nú er og verið hefir“, o. s. frv. Meiri hlutinn telur, að þessi rjettur til vatnsins, sem nú er og verið hefir, sje eignarrjettur, en minni hlutinn telur það aðeins vera takmarkaðan afnotarjett. Þetta þarf því úrskurðar við eftir sem áður. Það hefir komið fram áður á þingi, að rjett mundi vera að leggja þetta spursmál undir úrskurð dómstólanna. Jeg hefi í rauninni ekkert á móti því. Jeg veit mjög vel, hvernig færi; en jeg tel óviðkunnanlegt, að ríkissjóður fari í mál, sem er fyrirsjáanlegt, að hann tapar. Það hefir komið fyrir áður, að ríkinu hefir verið svo að segja skipuð málshöfðun, en hefir þó tapað, og það er leiðinlegt. En það er til annað vald en dómstólarnir, og það er Alþingi; það á að gefa lög og getur skorið úr, hvað hafi verið lög. Margir þingmenn hafa viljað varpa af sjer ábyrgðinni í þessu máli. En jeg sje ekki, að það geti komið sjer hjá því að greiða úr málinu. Það verður nú að koma til kasta þingsins. Það getur ekki þolað að láta málið þvælast lengur á dagskrá. Við verðum á þessu þingi að komast út úr þessu máli. En jeg sje ekki, að varabrtt. minni hlutans sje að neinu gagni nje aðgengileg til samkomulags. Aftur á móti virðist aðaltillaga háttv. minni hluta um breytingu á 2. gr. frv. geta verið nothæf, það er að segja, ef feldar eru þá allar aðrar brtt. hans við frv.

Munurinn milli beggja nefndarhlutanna er í rauninni djúpur, þar sem þeir byggja á svo mismunandi grundvelli, og það verður að fylgja honum stricte, hver sem hann er; þar má ekki blanda í greinum, er bygðar eru á öðrum grundvelli. Menn mega ekki láta blekkja sig á því, þótt einstaka breyting virðist vera til bóta. Slíkt er ekki auðvelt að sjá í fljótu bragði, einkum í svona stórum lagabálki. Jeg hefi frá upphafi verið á sömu skoðun og minni hluti fossanefndarinnar í þessu máli; og þess vegna þótti mjer rjett að leggja til grundvallar frv. minni hl. En til frekari fullvissu því, að þetta frv., sem hjer liggur fyrir. væri heilsteypt og ekkert kák, lagði jeg það fyrir einn besta lögfræðing á þessu landi, til að fá álit hans. (BJ: Hvern?) Það get jeg sagt háttv. þm. privat. Jeg treysti þessum manni best til þess að kveða upp rjett og hlutdrægnilaust álit um frv. Hann taldi það vera samfelda heild og fullkomið samræmi í því. Og nákvæmlega á sama grundvelli stóð Ed. Þær breytingar, sem hún gerði við frv., eru bygðar á eignarrjetti einstaklingsins, svo frv. er nú ein samfeld og samræmd heild. Þó að vera kunni, að einhverjar smábrtt. á þskj. 487. frá minni hluta nefndarinnar, kunni að vera óskaðlegar og jafnvel nothæfar, þá vil jeg ekki „risikera“ neinu með þær. Jeg vil því, að frv. verði samþykt óbreytt. Þá álít jeg, að Alþingi skilji vel við þetta mál. En þegar jeg athuga aðaltillögu minni hlutans við 2. gr., þá get jeg ekki sjeð, að hún komi að neinu leyti í bága við þá grundvallarreglu, sem frv. er bygt á, nefnilega eignarrjett einstaklingsins. Til samkomulags gæti jeg því fallist á hana, með því skilyrði, að allar aðrar brtt. væru teknar aftur, svo engin hætta væri á því, að mótsagnir væru í frv. Auðvitað er ekki hægt að fortaka það í svo stórum lagabálki, að hvergi sje árekstur, en jeg held þó tæplega, að mikil brögð verði að því.

Sómi þingsins liggur við, að þetta mál verði afgreitt sem lög; þá er mikið afrekað. Ef þinginu tækist þetta, mundi það verða talið merkisþing. En að öðrum kosti gæti jeg búist við, að það yrði kallað magra þingið.

Jeg sakna þess mikið, að sjerleyfislögin geta ekki komist líka fram á þessu þingi. En þó gerir það minna til; nú strandar hvort sem er mest á peningamálunum í heiminum. Jeg er á gagnstæðri skoðun við háttv. frsm. minni hl. (JÞ um sjerleyfislagafrv., og jafnvel líka hv. frsm. meiri hl. (SvÓ). Jeg álít, að sjerleyfislögin standi ekki að baki vatnalögunum. Ef þau hefðu verið til áður, þá hefði nú verið búið að virkja hjer vatnsföll í stærri stíl samkvæmt þeim, sem svo hefði haldið áfram smám saman.