03.05.1923
Neðri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

9. mál, vatnalög

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Það er nú komin á svo mikil kyrð og friður í þessu máli, að jeg er fús á að gera mitt til þess að raska honum ekki.

Jeg vil þó ekki láta standa með öllu athugasemdalaust í Þingtíðindunum þau orð hæstv. atvrh. (KIJ), að engum hafi fyrir 1919 dottið í hug annað en að landeigandi ætti það vatn, sem rynni um land hans. Sjálfir fossasamningarnir sýna einmitt ljóslega, að svo er ekki. Þar er alstaðar talað um að selja eða leigja landið og vatnsrjettindin, en ekki vatnið. Svo er t. d. um Sogsfossasamningana. Það er fyrst á allra seinustu árum, sem farið er að taka upp í einstaka samning ákvæði um sölu á sjálfu vatninu, og mun það að kenna norskum áhrifum. Er óvíst, að fossabröskurunum hefði nokkurntíma dottið í hug, að vatnið rennandi gæti orðið eign einstakra manna, ef ekki hefði verið um þessi áhrif frá norskum lögum að ræða.

Jeg álít það annars rjett, sem hæstv. atvrh. (KlJ) tók fram, að hjer sje um annað meira en teoretiskan skoðanamun að ræða. Deilurnar hafa að vísu verið nokkuð fræðikendar. En það stendur annað og meira á bak við þennan skoðanamun, og það mun vaxa annað og meira upp af honum en deilur um rjettarfræði.

Það gladdi mig annars, er hæstv. atvrh. (KIJ) kom fram með samkomulagstilraun sína. Hjer hefir einmitt ræst það, sem jeg hefi um hríð haft á tilfinningunni, að það, sem nú vantaði helst í þessu máli, væri samkomulagstilraun utan frá. Eins og oft vill verða, hefir ágreiningurinn náð svo föstum tökum á þeim mönnum, sem mest hafa um málið fjallað, bæði á þingi og í nefndum, að þeim er erfiðara um samkomulag en þeim, er utan við hafa staðið. Þótt jeg því bæri fram þessa samkomulagstilraun, þá var mjer það í upphafi ljóst, að hún hefði fremur átt að koma úr annari átt. Kom þetta líka brátt í ljós, er háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) lýsti yfir því, að hann gæti ekki átt neinn þátt í slíku. En nú, eftir að hæstv. atvrh. KIJ) tók að reyna að miðla málum, hefir þessi háttv. þm. (SvÓ) lýst yfir því, að hann gæti að vísu gengið að því að hafa 2. greinina svo orðaða, en sá ljóður væri þó á því, að um leið yrði að breyta ýmsu í lagabálkinum til samræmingar breytingunni, en það gæti hæglega valdið því, að frv. fjaraði uppi á þessu þingi. Svo langt hefir þá háttv. þm. nú gengið áleiðis móti okkur minnihlutamönnum, og sýnir þetta best, að rjett var hugboð mitt um það, að það gagnlegasta fyrir málið væri nú samkomulagstilraun utan frá. Hvað snertir þessa miðlunartillögu hæstv. atvrh. (KIJ), þá hefi jeg þegar sagt honum, að jeg myndi sjá mjer fært að ganga að henni. Má þó hver maður vita, að það er ekki af því, að jeg sje ánægður með þau úrslit málsins. Jeg finn vel, að rjett er það, sem háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði áðan, að við hefðum ekki fengið alt það, sem við vildum, ef ekki yrði samþykt nein önnur efnisbrtt. okkar en þessi eina En jeg er nú orðinn þreyttur á þessu þrefi og hefi enga löngun til þess að halda lengur uppi deilum í landinu um það, eftir að möguleikar eygjast til að afgreiða málið í þolanlegu formi. En það hlyti jeg þó að gera, ef ekki fengist þessi rjetting á 2. gr. frv. Því enginn skyldi ætla, þótt frv. í því horfi næði samþykki þessa þings, að það væri þar með á enda kljáð. Við myndum þegar vekja það upp á ný á næstu þingum, eftir að kosningar hafa farið fram, og er þá mjög óvíst, hver úrslitin yrðu að lokum. En jeg vil nú taka það fram, að fáist þessi rjetting á 2. gr., þá mun jeg eftirleiðis láta málið í friði.

Út af ræðu háttv. frsm. meiri hl. (SvÓ) þarf jeg annars ekki margt að segja. Mjer þykir leiðinlegt, ef mjer hefir orðið það á að snúa út úr fyrir honum áðan, og er það óviljandi gert. Jeg skal taka það fram, að jeg heyrði hann ekki segja neitt í þá átt, að frv. yrði afkáralegt, ef varatill. okkar yrði samþykt, en hin ekki. Er jeg fús, háttv. þm. til hugarhægðar, að gefa honum þessa skýringu.

Annars minti háttv. þm. (SvÓ) mig í svarræðu sinni á eitt atriði, sem jeg gleymdi að svara áðan. Hann hjelt því fram í framsöguræðu sinni, að tekið hefði fyrir fossabraskið, er frv. til sjerleyfislaga var lagt fyrir þingið. Jeg vildi, í því tilliti, aðeins taka það fram, að það var ekki bara þetta, sem olli þeirri stöðvun. Um þetta leyti kom upp meiri hluti milliþinganefndar í fossamálum, sem hjet fram langtum óaðgengilegra skilningi á lögunum fyrir fossabraskarana en gert var í Noregi, og auk þess tóku menn um þessar mundir að efast um það, að einsýnn gróði yrði að því að virkja fossana.

Þeim getsökum, sem háttv. þm. (SvÓ) bar fram algerlega órökstuddar á hendur mjer og landlækni, að afstaða okkar í málinu hafi lotið eigin hagsmunum, þeim svara jeg aðeins með einni neitun. Slíkum dylgjum er ekki hægt að hnekkja með rökum. Þær ganga sjálfar óstuddar, og mun jeg því ekki fara að ganga með rökstaf í hönd á móti þeim, heldur aðeins mótmæla, að nokkuð sje hæft í þeim.

Jeg get svo látið útrætt um málið. Aðeins vil jeg sýna hæstv. atvrh. (KIJ) þá viðurkenningu fyrir samkomulagstilraun hans, að taka aftur 1. brtt. mína við frv., svo að hún þurfi ekki að valda ruglingi við atkvgr. Jafnframt get jeg svo gefið þá yfirlýsingu fyrir hönd okkar minnihlutamanna, að ef samþykt verður aðaltillaga okkar við 2. gr. frv., þá tökum við aftur allar hinar brtt. okkar. Verði aftur á móti þessi aðaltillaga okkar ekki samþykt, þá koma náttúrlega allar brtt. til atkvgr.