05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

9. mál, vatnalög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg hjelt að vísu, að þetta mál væri útrætt við 2. umr. og yrði ekki brotið upp á því á nýjan leik nú. Jeg stend aðeins upp til þess að lýsa yfir því, að jeg tel rjett að afgreiða málið nú, þar sem sæmilegt samkomulag hefir nú loksins fengist. Jeg fyrir mitt leyti sje heldur ekki, að munurinn á 2. gr. nú og áður sje svo mikill. Það er hvorttveggja það sama sagt á mismunandi hátt. Eftir frv. stjórnarinnar, sem er bygt á áliti minni hl. fossanefndarinnar, og Ed. hefir samþykt, fylgir landareign rjettur til umráða o. s. frv. með þeim takmörkunum sem „lög, venjur eða aðrar heimildir“ hafa í för með sjer. Í síðustu grein frv. eru talin upp öll eldri ákvæði um vatnsrjettindi. vafalaust alveg úttæmandi, og feld úr gildi. Verður þá ekkert eftir annað en „lög þessi“, eða nákvæmlega eins og stendur í brtt. minni hl. Sá eini munur, sem er á þessum 2 greinum, er að orðin „venjur og aðrar heimildir“ eru feld burtu, en venjur gilda aldrei á móti lögum, og verða ekkert kröftugri fyrir það, þó það sje tekið fram í lögum, að þær skuli gilda, og sama er að segja um heimildir; þær gilda auðvitað, hvort sem tekið er fram í sjerstökum lögum, að þær skuli gilda. Munurinn er því í raun og veru enginn, og á sömu skoðun er lögfræðingur sá, sem jeg hefi áður minst á. Tíminn verður að skera úr, hverju ábótavant er í lögunum að öðru leyti. Vænti jeg þess svo eindregið, að hv. deild samþykki frv.