07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

9. mál, vatnalög

Jón Magnússon:

Jeg er að efni til öldungis samdóma háttv. frsm. (GGuðf), en jeg geri ráð fyrir, að það hafi verið mismæli hans, er hann sagði, að nefndin hefði fallist á brtt. háttv. Nd. Það er eigi allskostar rjett. Nefndin vill fallast á, að frv. verði samþykt, þrátt fyrir brtt. Nd. Nefndin var alls eigi ánægð með breytinguna, að minsta kosti eigi meiri hluti nefndarinnar, er taldi breytinguna koma algerlega öfugt inn í frv. En einn nefndarmaður, háttv. 3. landsk. þm. (HSn), var vitanlega ánægður með hana, eins og kom fram við 2. umr. málsins í þessari háttv. deild. Jeg tel breytingu háttv. Nd. mjög óheppilega, en er hins vegar samdóma hv. nefndarmönnum um það, að ófært sje nú að eyðileggja alt það verk, sem lagt hefir verið í það að gera frv. að lögum. Því teldi jeg það ráð að samþykkja frv. nú eins og það liggur fyrir, og sjá svo, hvernig það reyndist í framkvæmdinni. Jeg fyrir mitt leyti hygg, að framkvæmd frv. verði svipuð og hún hefði verið, þó að það hefði verið samþykt óbreytt eins og þessi háttv. deild gekk frá því í fyrstu. Að öðru leyti get jeg látið mjer nægja að vísa til þess, sem jeg sagði um málið við 3. umr. þess hjer í þessari hv. deild. Okkur hæstv. atvinnumálaráðherra greindi þá á um það, hvort skoðanamunur sá, er hjer hefir verið, væri svo mikill eða þannig vaxinn, að ekki gæti komið sama út í reynd, og hygg jeg hann nú kominn á mína skoðun í þessu atriði. eftir yfirlýsingu hans í háttv. Nd.