24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

124. mál, friðun á laxi

Flm. (Þorleifur Guðmundsson):

Hv. deild er það kunnugt, hvað frv. þetta, sem er flutt eftir áskorun bænda þeirra. er veiði eiga við Ölfusá og Hvítá, fer fram á. Þeir, sem veiði eiga í Ölfusá, verða nú að taka upp net sín á helgum. 36 stundir, en bændur þar fara nú fram á undanþágu frá þessu ákvæði laxveiðilaganna. Kann sumum að þykja það viðurhlutamikið, sem ókunnugir eru þarna. En þó horfir þarna öðruvísi við en annarsstaðar; áin er breið og djúp og laxgangan stöðvast alls ekki, þó netin fái að liggja óhreyfð, en það er bændum til mikils hagræðis. Jeg hefi einnig leitað álits þeirra, sem búa ofar við árnar. t. d. talað við hreppstjórann í Gnúpverjahreppi. Pál Lýðsson, sem býr á einni mestu veiðijörðinni þar efra, og telur hann þetta allsendis hættulaust. Það er líka öllum Ijóst, sem til þekkja, að sá lax, sem veiðist í Ölfusá, er þetta frá 1–2 þúsund á ári, og er það ekki nema lítið brot af öllum laxi, sem gengur upp eftir ánni, svo að netin gera enga stöðvun á göngunni. Jeg vona því, að háttv. deildarmenn sjái, að hjer er um sanngjarna málaleitun að ræða, sem öllum er hættulaus, en laxveiðibændum þarna til hagræðis og getur orðið til þess að auka útflutning landsafurða, og með því hjálpað til að hækka gildi íslenskrar krónu.