24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

124. mál, friðun á laxi

Þórarinn Jónsson:

Hv. 1. þm. Rang. (GunnS) talaði um það, að netin væru svo í Ölfusá, að engin hætta stafaði af fyrir laxgönguna, og sagði, að þau væru eins og slý við bakkana og að undantekning væri, ef lax kæmi í þau. Greinargerðin skýrir frá þessu, en jeg hjelt, að ekki yrði gerð sú krafa til neins að trúa því. Og það er lítill greiði við hlutaðeigendur, að gera það líklegt, að ekki sje meiri mannræna í bændum þar en svo, að þeir reyni ekki að láta veiðina verða sjer að fullum notum, heldur en að fá lagavernd til þess að brjóta skýlausan rjett annara. Og mikið væri þeim nær að gera ráðstafanir til þess að stunda veiðar þessar af meiri manndómi innan takmarka gildandi laga. Annars sýnast þeir ekki hafa upp úr þessum veiðum nema netaslit, og líklega ekki það. En þetta á sunnudagsveiðin að bæta upp og er er því frv. þetta jafnnýstárlegt á allan hátt og fráleitt því að geta orðið samþykt.