20.02.1923
Efri deild: 3. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (1870)

3. mál, hjúalög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Frumvarp þetta er borið fram eftir ósk háttv. Nd. í fyrra, og hefði því í rauninni átt að leggjast fyrir hana nú. En jeg tel þó rjettara að leggja það fyrst fyrir þessa háttv. deild, fyrir þá sök, að jeg taldi það hollast fyrir málið, að það fengi þegar í byrjun rólegar umræður.

Núgildandi hjúalög eru orðin um 60 ára gömul, og þau voru upphaflega sniðin eftir dönskum hjúalögum frá 1854, svo í raun og veru má nú telja þau orðin 70 ára gömul. Þetta eitt út af fyrir sig ætti að vera nægileg ástæða til þess að breyta þeim, því að ýmsar þær reglur, er tilskipunin frá 26. jan. 1866 greinir, eiga nú ekki við í ýmsum greinum, og breytingin frá því, sem þá var, er nú orðin mjög mikil, þar sem t. d. varla er nú um árshjú að tala, heldur eru misserisvistirnar orðnar svo algengar, að t. d. í kaupstöðunum eru ársvistir orðnar undantekning ein.

Margir munu ef til vill líta svo á, að frjálsir samningar milli hjúa og húsbænda væru nægilegir. En því er þá til að svara, að þeir eru sjaldan eða aldrei gerðir, og er þá ekki um annað að gera en að setja lagaákvæði um vistarsamninga. þess ber líka að gæta, að flest þau hjú, sem eru í vist, eru unglingar á aldrinum frá 16–21 árs, sem vegna æsku og reynsluleysis þurfa sjerstaka vernd, sem þessi lög veita þeim.

Vil jeg svo leyfa mjer að leggja til, að frv. verði vísað til allshn.