02.03.1923
Efri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (1873)

3. mál, hjúalög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg skal játa, að tilsk. frá 1866 var vandaður lagabálkur, enda hafði hún fengið mikinn undirbúning, bæði utan þings og innan. Tvent ber sjerstaklega vitni um þetta. Í fyrsta lagi hafa engir viðaukar verið settir við tilsk., svo jeg viti til, en svo hefir verið gert um flest eldri lög, sem eitthvað kveður að. Það hafa ekki verið gerðar neinar breytingar, nema að nokkrar greinar tilsk. hafa verið teknar upp í fátækralögin, og eru það 16.–21. gr. Í öðru lagi má benda á, að mjög fá hjúamál hafa komið fyrir dómstólana, því lögin hafa verið svo skýr. En þrátt fyrir þetta hafa þó heyrst raddir um að breyta þessum lagaákvæðum, því þau væru að mörgu leyti orðin úrelt og á eftir tímanum. Yfirleitt hefir mönnum nú þótt það að, að tilsk. veiti húsbændum of mikinn rjett, því að fyrir 60 árum var samband hjúa og húsbænda með alt öðru móti en síðar hefir orðið. Undir aldamótin bárust þessar raddir til þingsins, og á 3 þingum þá lágu breytingar fyrir, en urðu ekki útræddar, og í eitt skifti feldar. Í fyrra komu þessar sömu raddir fram í Nd., og samkv. því liggur þetta frv. fyrir nú.

Það er rjett hjá hv. frsm. (JM), að mörg ákvæði frv. eru eins og ákvæði tilsk. frá 1866, en þeim er hjer vikið betur við, betra samhengi þeirra á milli, og því álít jeg, að frv. sje til bóta að þessu leyti. Annars hafði jeg vonað, að nefndin gæti að mestu fallist á frv., þar sem ekki er um meiri skoðanamun að ræða í raun og veru. Jeg tel það aðalkost frumvarpa, að þau stofni til heildarlaga, og eru slík lög nauðsynleg á sem flestum sviðum nú, í stað þeirra óteljandi ákvæða í hinum og þessum lögum, sem nú gilda um ýms atriði. Jeg las það í dönsku blaði nýlega, Berlingske Tidende, að það var haft eftir merkum dönskum lögfræðingi, sem hafði setið lögfræðingafund í Kristianiu, að þar hefði talað norskur lagamaður, sem lýsti því yfir, að norsk lagaskipun væri nú á svo mikilli ringulreið, að ekki væri nema fyrir sjerstaka lagamenn að vita, hvað væri lög um hvert einstakt atriði. Og danski lögfræðingurinn sagði, að sama ætti sjer stað um dönsk lög. Við Íslendingar höfum sömu sögu að segja, og ef til vill ekki betri. Ef nú frv. yrði að lögum með því móti, sem hv. nefnd leggur til, þá yrði ákvæða um þetta efni að leita í þrennum lögum, hjúatilsk. frá 1866, fátækralögunum og svo þessum nýju lögum. Mjer hefði þótt fara best á því, ef nefndin hefði sjeð sjer fært að halda öllu þessu í einu lagi, eða þá mæla svo fyrir, að hjúatilsk. yrði gefin út sem lög með þeim breytingum, sem frv. hefir í för með sjer.

Hv. 4. landsk. þm. (JM) hefir áður verið á sömu skoðun og jeg um þetta efni, því í athugasemdum við fátækralagafrv., 16.–21. gr., standa þessi orð, eftir hann sjálfan, sem jeg ætla að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefði að vísu mátt nægja að vísa um þessa sjerstöku hjúaframfærslu til nefndra ákvæða hjúalaganna, en nefndin þóttist vita vilja Alþingis um það, að þessi ákvæði væru og tekin hjer upp, til þess að hreppsnefndir þyrftu ekki annarsstaðar að leita að þeim, enda ekki óheppilegt í sjálfu sjer að hafa sem mest af slíkum ákvæðum á sama stað.“

Þetta er rjett athugað, og jeg er því alveg samdóma, en það er ef til vill of varlega að orði komist. Jeg hefði ekkert á móti því að orða það sterkara. Og ef nefndin hefir þá vitað rjett vilja Alþingis, þá ætti þessi nefnd að vita nú, að sá vilji er enn hinn sami. Af þessum ástæðum verð jeg að telja, að nefndin hafi spilt frv. með því að ætla að brytja ákvæðin niður í þrenn lög. En jeg gæti sætt mig við þessa meðferð, ef ákveðið hefði verið að gefa hjúatilsk. síðar út sem lög. Um leið og jeg enda þessar almennu athugasemdir skal jeg geta þess, að jeg hefði engan veginn tekið það óstint upp, þó að nefndin hefði kallað mig á fund til sín til þess að ræða þetta mál.

Þá kem jeg að einstökum atriðum. Við 1. brtt. hefi jeg í raun og veru ekki mikið að athuga, en jeg vil aðeins benda á, að hún er í ósamræmi við 2. gr. tilsk., sem enn verður í gildi. Eftir 1. gr. eru vistarráð gild, þótt ekki standi þau til næsta hjúaskildaga. Ef því hjú er ráðið 1. sept. og t. a. m. til ársloka, þá eru þau vistarráð gild, en eftir annari gr. tilsk. eru þau vistarráð gild, þó skemri sjeu en ár, en þó því aðeins, að þau standi til næsta hjúaskildaga. Vistarráð, sem eru stofnuð 1. sept., eru því gild, en verða þó að standa til 14. maí næst eftir.

Þetta er bein mótsögn.

Nefndin hefir ætlað 6., 8., og 22 gr. að standa, og við þær gr. þarf jeg ekkert að athuga.

En það eru fleiri ákvæði, sem jeg hefði óskað að nefndin hefði tekið til greina, og háttv. frsm. (JM) gat þess líka, að ef til vill hefði verið ástæða til að gera það. Jeg sakna þess, að nefndin sá sjer ekki fært að taka 7. gr., einkum niðurlagið. Það þykir orðið sjálfsagt af þrifnaðar- og heilbrigðisástæðum, að hjú sofi eitt sjer og hafi sæmilegan aðbúnað, en víða mun vera misbrestur á þessu. Jeg á þó ekki við, þó hjú viki úr rúmi fyrir gestum eða þegar sjerstaklega stendur á, þó þau þá verði að sofa saman nótt og nótt, Jeg var að vona, að þetta ákvæði fyndi náð hjá að minsta kosti 2 nefndarmönnum, sem eru læknar, og jeg vil beina því til þeirra að íhuga betur þetta atriði. Það þykir ef til vill smásmuglegt að vera að lögfesta atriði eins og þau, að hjú eigi að fá hreint handklæði á vissum fresti, rúmföt og þesskonar, en það er víst engin vanþörf á því hjúanna vegna.

Í 9. gr. eru ákvæði um það, ef hjú verður vitskert. Um slíkt eru engin ákvæði í lögum, en það væri ekki óeðlilegt, þó það væri tekið upp í hjúalög.

Þá er 18. gr., um að unglingum skuli vera gefinn kostur á að sækja kvöldskóla, og jeg legg áherslu á það atriði. Hjer er ekki átt við þá unglinga, sem eru sjerstaklega ráðnir til kvöldvinnu, heldur hina, og er það þeim mikils vert að geta átt kost á að menta sig, ef þeir hafa hug á því.

Þá er eitt litið ákvæði í 4. gr. frv., sem hefði átt að finna náð hjá háttv. nefnd. Það er ákvæðið um það, að ógift vinnukona mætti slíta vistarráðum með stuttum fyrirvara, ef hún gæti sannað það, að hún ætti kost á giftingu. Þetta er ekki óeðlilegt ákvæði, og ilt að meina stúlkunni að nota tækifærið, ef hún á von á góðri giftingu. Það hefir fráleitt verið af kvenhatri, að nefndin hefir lagt til, að þetta ákvæði verði felt í burtu, heldur hefir hún ekki athugað það, og lagar það vonandi til 3. umr.

Verði brtt. nefndarinnar samþyktar, þá verður ósamræmi milli 4. gr. frv. og 11. gr. tilsk. Nefndin leggur til, að þegar húsbóndi á að greiða matarkostnað hjús síns í sjúkdómstilfellum, þá skuli það þó aldrei nema meiru en 1 hndr. á landsvísu, hvort sem er um karl eða konu að ræða. Frsm. (JM) gat þess, að gildi peninga í krónutali væri mjög svo á reiki, enda þetta líka, en þó rjettara að miða við það.

Það getur verið mikið álitamál, hvort rjettara er, en þarna er miðað við 1 hndr. alment, en í tilsk. er það 1 hndr. fyrir karlmann, en 80 álnir fyrir kvenmann. Hjer verður því ósamræmi. Sje jeg engan mun gerandi á því, hvort það er karl eða kona.

Þá eru ákvæðin í 20. gr. tilsk., um það, að unglingar skuli vera undir húsaga til 16 ára aldurs, tæplega samkvæmt anda nútíðarinnar. Þetta eru fornmenjar, sem ættu að falla niður. — í 1. gr. er og eitt fornfálegt ákvæði, það, að ófermdir unglingar eldri en 16 ára hafi ekki leyfi til að vista sig nema samþykki sóknarprests komi til. Hversu margir skyldu nú hlýða þessu boði? Sjálfsagt enginn. Líklegt jafnvel, að fæstir prestar hafi hugmynd um, að þeir hafi þennan íhlutunarrjett um ráðning hjúa. Þetta er samkvæmt venjum, er ríktu fyrir 60–70 árum, en ekki samkvæmt nútíðarhugsunarhætti, og sýnir auk margs annars, hve úrelt tilsk. er og hve hæpið er að bæta svo gamla flík.

Það, sem frsm. (JM) sagði um vinnuhjúaskildagann á Austurlandi, er rjett. Þar er hann 3. maí, sem er krossmessan þar. Í frv. hefði því átt að standa krossmessa, í stað 14. maí, sem er aftur krossmessudagur annarsstaðar á landinu. Jeg býst ekki við, að hv. nefnd fallist á frv., en vona, að hún taki þessar athugasemdir til athugunar til 3. umr.