02.03.1923
Efri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (1875)

3. mál, hjúalög

Jónas Jónsson:

Það má vera, að það sje af því, að jeg er nýr þingmaður, en jeg get ekki neitað því, að mjer finst vinnubrögð þau, er hv. allshn. hefir haft við þetta frv., vera næsta undarleg. Hún kemur hjer fram með tillögur um það að fella burt nálega allar greinar stj.frv., án þess þó að leggja til, að frv. sjálft verði felt. Þessi vinnubrögð eru því undarlegri og handahófslegri, þegar þess er gætt, að einmitt því er leyft að standa, sem helst hefði átt að fara. Tökum t. d. atriðið viðvíkjandi kaupinu í 8. gr., sem jeg skal leyfa mjer að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef eigi hefir verið samið um annan galddaga kaupsins og um mánaðarkaup er að ræða, hefir hjúið rjett til að krefjast greiðslu kaupsins við lok hvers mánaðar. Ef kaupið hins vegar er ákveðið í einu lagi fyrir allan vistartímann, hefir hjúið, að liðnum þrem mánuðum af vistartímanum, rjett til að krefjast greiðslu á kaupi því, er það hefir unnið fyrir hinn fyrsta vistarmánuð, eftir fjóra mánuði á kaupi fyrir annan vistarmánuð o. s. frv., þannig að jafnan standi tveggja mánaða kaup ógreitt hjá húsbónda þess, þar til vistarráðunum er löglega lokið.“

Það er mjög undarlegt, að nefnd, sem leggur til að fella burtu um 30 greinar úr frv., skuli láta þetta ákvæði standa. Það er vitanlegt, að það er sjerstaklega óhentugt fyrir sveitabændur að greiða kaup eins og í kaupstöðum. Viðvíkjandi framkomu nefndarinnar í þessu máli verð jeg að segja, að mjer þykir hún alveg furðuleg. Hjer var ekki nema um tvent að gera, annaðhvort að „kodificera“ löggjöfina um þetta efni, eins og stjórnin hefir gert, eða þá ganga hreint til verks og fella frv., en ekki bæta hjer við nýjum glundroða. Háttv. 4. landsk. þm. (JM) gat þess hjer á dögunum, að það væri hringl að breyta ákvæðunum um íþróttaskatt. En ef svo er, þá verð jeg að segja, að það sje ófært hringl að fara hjer að eyðileggja frv., sem fram er komið eftir ósk Nd. í fyrra, og hún er svo stór hluti Alþingis, að það er kurteisisskylda að taka tillit til hennar. Mjer finst hjer koma fram hjá háttv. 4. landsk. þm. (JM) ást á glundroða, sem spillir allri lagasetningu. Einn kennarinn í lögum hjer við háskólann hefir áfelt hið ríkjandi skipulagsleysi í löggjöf Íslendinga með svipuðum orðum og hæstv. atvrh. (KIJ) hafði eftir norskum og dönskum lagamönnum um ástandið í þeim löndum. Hjer er sannarlega þörf á að „kodificera“ löggjöfina. Það hefir stjórnin og leitast við að gera í þessu máli, er hún hefir fært í nútímabúning úrelt ákvæði og jafnframt tekið tillit til reynslu annara þjóða. Mjer virðist koma fram hjá hv. 4. landsk. þm. (JM) tilhneiging til þess að eyðileggja þetta frv., án þess að færa fram nægileg rök fyrir því, hvers vegna hann vill gera það. Jeg veit ekki, af hvaða málefnum Alþingi ætti að skifta sjer, ef ekki einmitt af þessu. Því að það er vitanlegt, að viðskifti húsbænda og verkafólks eru einn stærsti þátturinn í viðskiftalífi þióðar vorrar.

Í einu atriði, er nefndin leggur til að fella burt 23. gr., virðist manni, að nefndin taki í strenginn með þeim, sem greinin á að vera á móti, með því að fella hana niður. En í þeirri grein er hjúinu heimilað að fara fyrirvaralaust úr vistinni, ef það getur sannað, að húsbóndi hafi misþyrmt því o. s. frv. (Atvrh.: Þetta ákvæði er í 29. gr. tilsk. frá 1866). Það má vel vera, en jeg sje ekkert á móti því, að þetta kæmist inn í heildarlöggjöfina.

Þá er það undarlegt, að í því lítilræði, sem nefndin hefir samið til viðbótar við 14. gr., er það lagt til, að kaupið greiðist eftir landsvísu. Alt er gert til að skrúfa ákvæðin sem lengst aftur í tímann. Með því að slík greiðsla er ekki lögboðin hjer viðvíkjandi öðru verkakaupi, þá virðist ekki ástæða til að lögbinda hana hjer á þessu litla sviði.