02.03.1923
Efri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (1877)

3. mál, hjúalög

Frsm. (Jón Magnússon):

Það er eitt atriði, sem jeg hefi ekki minst á í þessu máli, og hæstv. atvrh. (KIJ) hefir ekki heldur gert það. Það gæti verið álitamál, hvort ástæða væri til þess að breyta um rjettarfar í hjúamálum. Jeg sje ekkert á móti því, að farið sje með þau eftir alm. einkamálareglum, en það yrði að vísu báðum dýrara. Það var mjög kostnaðarlítið að hafa einkalögreglumálameðferð og dálítið meiri trygging fyrir rjettri niðurstöðu.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) gaf mjer ekki ástæðu til að tala frekar um mál þetta. Honum finst ekki sæmilegt, hvernig farið hefir verið með þetta stjfrv., og tekur þar langtum dýpra í árinni en stjórnin sjálf. Við þessu er ekkert að segja. Það er ekki nema loflegt, að tryggir fylgjendur stjórnarinnar taki upp þykkjuna fyrir hana. Menn verða ekki altaf varir við, að fylgjendurnir sýni slíka tröllatrygð sem þessi hv. þm.

Hv. 2. landsk. þm. (SJ) kvað vanta skilgreiningu á því, hvað meint væri með orðinu hjú. En það er ómögulegt að ákveða það með lögum; það verður eftir því, sem kaupin gerast á eyrinni, hvort viðkomandi telst hjú eða ekki. Jeg hygg, að sá mundi álitinn hjú, sem ráðinn er til allra verka, t. d. frá vordögum til hausts. En annars verður það að vera komið undir áliti dómstólanna í hverju einstöku tilfelli.