05.03.1923
Efri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (1882)

3. mál, hjúalög

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg hefi eigi ástæðu til að segja mikið um mál þetta, eins og það er nú komið. Jeg hefi orðið var við, að sumir háttv. deildarmenn eru smeykir við það, sem eftir er af frv. stjórnarinnar, er snertir stytting vistartímans. En hvað sem því líður, þá væri máske rjett að lofa því að komast til háttv. Nd., og getur hún þá gert þær breytingar við það, sem hún vill.

Annars hefði verið rjettara í upphafi, að frv. þetta hefði verið lagt fyrir hv. Nd. Hún hafði óskað eftir því. En eftir afstöðu allsherjarnefndar hjer til frv. frá fyrstu er henni vissulega ekki ant um það.

Háttv. 2. landsk. þm. (SJ) athugaði það rjettilega við 2. umr., að það getur oft verið efi á eftir frv., hvort maður sje kaupamaður eða vinnumaður, og að frv. kunni í einhverju tilfelli að leggja ósanngjarna byrði á húsbændur.

Jeg skal svo að endingu leyfa mjer að skjóta því til hæstv. forseta, hvort nokkuð sje því til hindrunar, að í 1. gr. sje skotið inn í titilinn eftir 1866: „um vinnuhjú á Íslandi“. Er þetta ekki meiri breyting en venjulega er gerð af forseta.