24.03.1923
Neðri deild: 28. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (1907)

90. mál, kosning þingmanns fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Flm. (Einar Þorgilsson):

Frv. það, sem hjer liggur fyrir á þskj. 159, um kosning þm. fyrir Hafnarfjarðarkaupstað, er gamall kunningi hjer í háttv. þingdeild, þar eð það hefir verið flutt á hverju þingi síðan 1920. Leyfi jeg mjer að vísa til Alþingistíðindanna 1922, A, bls. 188.

Krafan er endurtekin árlega af þeim sanngirnisástæðum, sem kjósendum kaupstaðarins finst liggja við, og miða þeir þá við aðra kaupstaði landsins, sem allir hafa nær því samtímis fengið þingmenn og bæjarrjettindi, enda þótt þeir þá ekki hafi haft fólkstölu að hálfu leyti við það, sem Hafnarfjarðarkaupstaður hefir lengi haft, og allra síst, ef miðað er við fólkstölu kaupstaðarins nú, sem er 2630; er hann því nú fólksflesti kaupstaður landsins, annar en höfuðstaðurinn, Reykjavík. Það hlýtur því að vera hverjum manni ljóst, jafnt háttv. þingmönnum sem öðrum, að það er sanngirniskrafa, sem hjer er farið fram á. Annaðhvort er það, að Hafnfirðingar eiga fylsta rjett á því að fá þm. fyrir sig eða að aðrir kaupstaðir á landinu hafa ekkert tilkall átt til þessa. Það er þetta, sem Hafnfirðingar styðja kröfu sína við.

Hafnfirðingar hafa í mörgum atriðum ólíkra hagsmuna að gæta, borið saman við aðra hluta kjördæmisins eins og það er nú, engu síður en íbúar annara kaupstaða hafa haft á sínum tíma, er þörf þótti að lögfesta þeim þingm. fyrir sig, sem mun út af fyrir sig hafa miklu um ráðið.

Jeg leyfi mjer því að vænta þess, að háttv. deild taki frv. þessu góðfúslega, og það því fremur, sem Hafnfirðingar hafa mátt bíða svo lengi eftir því að fá kröfu sína uppfylta, og sýni það fyrst með því að lofa málinu að ganga til 2. umr. og allshn. að lokinni umr.