27.02.1923
Neðri deild: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (1913)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Magnús Jónsson:

Þetta frv. er frábrugðið öðrum frv. um sameiningu og afnám embætta, sem hjer hafa legið fyrir, að því leyti, að þar var um alkunn embætti að ræða, er vænta má, að allir hv. deildarmenn þekki og viti deili á störfum þeirra.

En hjer er farið fram á að sameina stöður, sem flestum mun lítt kunnugt um, hver störf fylgja. Hefði því mátt fastega búast við, að hæstv. stjórn gæfi þinginu glöggar upplýsingar um störf þessara manna. En stjórnin hefir ekki sjeð ástæðu til þess. í stað þess eru prentaðar fáar línur til stuðnings frv., og ræða hæstv. forsrh. (SE) var sömu tegundar: að þetta væri ekki ofverk einum manni og störfin náskyld.

Jeg get eigi að því gert, að jeg hefi ávalt litið svo á, að störf þessi væru mjög fjarskyld og til þeirra þyrfti mismunandi og ólíka menn. Þetta er ef til vill misskilningur, og mun hæstv. forsrh. (SE) geta fært mjer heim sanninn um það. En þó hygg jeg, að hæstv. atvrh. (KIJ) muni mjer ekki mjög ósamdóma í þessu efni, en hann er nákunnugur söfnunum og störfum við þau.

Í landsbókavarðarembættið þarf mann, sem hefir nákvæma þekkingu á bókasöfnum með stærri menningarþjóðum, hvernig þar er starfað og söfnunum komið haganlegast fyrir. Landsbókavörður þarf að vera vel heima í heimsbókmentunum; hann þarf að vera viðsýnn, víðlesinn og fjölfróður maður.

Aftur á móti þarf skjalavörðurinn umfram alt að vera sjerfræðingur. Þeir, sem nota skjalasöfn og vinna á þeim, vita fullvel, að því nær alt er undir því komið, að þar sjeu menn, sem þekkja að heita má hvert plagg. Hjer er engin skrá til yfir skjalasafnið, er farið verði eftir, og jeg efast um, að auðið sje að gera hana svo úr garði, að ekki þurfi jafnan leiðsögu nákunnugs manns til þess að geta haft safnsins full not.

Jeg hygg, að vandfundinn sje sá maður, sem væri hentugur í báðar stöðurnar. Auðvitað mætti sem best sameina yfirstjórn beggja safnanna. En sá ljóður er á því, að þá yrði jafnan ónýtur yfirmaður við annað safnið. Ef Landsbókasafninu stýrði vel hæfur maður, með mikla almenna þekkingu á bókasöfnum og bókmentum, en ekki þá sjerstöku þekkingu, sem er nauðsynleg við þjóðskjalasafnið, þyrfti sjerfróða aðstoðarmenn þar. Auk þess ætti landsbókavarðarstaðan að vera ærið starf fyrir einn mann.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta efni, en verð að láta í ljós undrun mína á því, hve gálauslega hæstv. forsrh. (SE) fer með tölur. Hann telur 9500 króna sparnað að þessu, og er þó ekki til þess ætlast, að embættið sje lagt niður þegar í stað, heldur þegar það verður laust. Ætti því að telja sparnaðinn eftir hámarkslaunum embættisins, sem er 5500 kr. Frá þessari upphæð verður svo að draga laun þess manns, sem yrði látinn vinna þau störf, er nú hvíla á yfirskjalaverðinum. Því að síst mun nú ofaukið starfsmönnum við söfnin, enda heyrast þaðan jafnan kvartanir um manneklu. Jeg hygg því, að sparnaðurinn við þessa samsteypu muni verða nær 2000 kr. en 9500 kr.