03.04.1923
Neðri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (1925)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Forsætisráðherra (SE):

Jeg vil þakka háttv. meiri hl. undirtektir hans. Hefi jeg ekkert á móti orðabreytingum hans, því að meiningin er hin sama og stjfrv., sem sje sú, að hvorugur mannanna þurfi að taka við hinu embættinu, er það losnar, nema hann vilji.

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) þótti ástæður frv. stuttar og ljelegar. En ástæðurnar voru ekki hafðar lengri sökum þess, hve málið var ljóst fyrir alla óafvegaleidda menn; sjest það og, að rökstuðning frv. er næg, þegar maður hefir lesið nál. hv. þm. Margar af ástæðum hans koma málinu ekkert við, t. d. það, að hjer sje að ræða um dýr söfn. Stjórnin efast ekkert um það, en aðalatriðið fyrir henni var það, að jafntrygt væri að hafa einn góðan mann fyrir báðum söfnunum eins og að búa hjer til tvær stöður.

Þá sagði hann, að í hverju sjálfstæðu ríki þyrftu að vera sjerstök söfn, landsbóka- og þjóðskjalasöfn og einhver fleiri. Jeg hefi nú aldrei heyrt, að tilvera þessara safna væri, einkenni „Suverænitetsins“. Háttv. þm. skýrir það sennilega betur. Aðalárás hans byggist á því, að skyldleikinn sje enginn á millum þessara starfa. En á það get jeg ekki fallist. Hvorttveggja söfnin eru þó fróðleiksbrunnar, sem vísindamennirnir sækja til.

Hv. þm. talaði mikið um þann sálfræðilega mismun, sem þyrfti að vera á millum þessara manna. Landsbókavörður þyrfti að vera viðsýnn og „business“-maður, hinn aftur á móti „specialisti“. En ef þessu er svona varið, að það þurfi alveg sjerstaka sálarhæfileika, sem því miður voru nú ekki sem skýrast afmarkaðir hjá hv. þm., þá leiðir af því, að auka þarf stórlega við tölu landsbókavarða á landsbókasafninu sjálfu. Einn þarf að sjá um handritin, sem þar eru enn, annar guðfræðibækur o. s. frv. En þessi sundurgreining held jeg varla verði tekin til greina.

En annars er jeg óviss í, að þessi skilgreining hv. þm. sje rjett. Jeg held, að landsbókaverðir sjeu yfirleitt ekki valdir eftir því, hversu miklir „business“- menn þeir eru, miklu fremur tekið tillit til vísindahæfileika þeirra. Eins held jeg, að ekkert sje á móti því, að þjóðskjalavörðurinn sje víðsýnn maður, því yfirleitt þykir það heldur kostur, hvaða störfum sem gegnt er.

Þá gerði hann sjer mikinn mat úr þessari „toppfígúru“, sem ætti að stofna. Jeg veit ekki, hvað hv. þm. á við. Kallar hann núverandi skjalavörð „toppfígúru“? Eða hvað?

Þá segir hann, að að þessu sje hneisa, menningartjón og fjárhagslegur skaði. Þetta eru algerlega órökstudd gífuryrði. Mundi hann sannfærast um það, ef hann liti til annara þjóða, að það mundi ekki þykja mikil störf, þótt stjórn þessara tveggja safna væri falin einum manni.

Þá skildist mjer, að hann áliti, að þjóðskjalavörðurinn færi illa út úr því, ef frv. yrði samþykt. En hvernig má það verða? Maðurinn heldur embættinu svo lengi sem hann vill og er ekki skyldur að taka hitt embættið að sjer, þótt það losnaði.

Hann sagði, að safnið hefði tekið stórum framförum eftir að núverandi skjalavörður tók við því, Mjer kemur ekki til hugar að neita því, en þetta er honum engin sönnun. Það er undir mönnunum, sem forstöðuna veita, hver ávöxturinn af starfi þeirra verður, og þetta safn hefði sennilega tekið sömu framförum, þótt þessi maður hefði verið forstöðumaður beggja safnanna.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þetta, því að málið er svo einfalt; aðeins vil jeg geta þess, að jeg veit ekki, hvar má spara, ef það er ekki hjer.