03.04.1923
Neðri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (1927)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Mjer finst ekki ástæða til þess fyrir háttv. frsm. minni hl. (MJ) að kvarta undan því, að meiri hl. skorti rök fyrir sínum málstað. Þá ætti að vera þess ljettara fyrir hann að sækja málið. Hann hefir ætlað að töfra háttv. deildarmenn eða aðra áheyrendur með þessu, og ann jeg honum þess vel.

Jeg skal ekki tala um rökfærslu hv. minni hl., en vil benda honum á, að ástæðurnar og rökin fyrir þessu máli hafa komið fram áður og eru í þingtíðindum fyrri ára, svo að óþarft er að endurtaka þau hjer.

Háttv. þm. talaði um skjalasafnið, sem væri miljónavirði og yrði látið rotna niður, af því að það mundi verða nokkurskonar sel frá Landsbókasafninu. Þetta er aðeins fjarstæða, og algerlega rangt, að slíkt leiði af þessu frv., þó það verði að lögum. Sama er að segja um hitt atriðið, að leggja eigi niður annað safnið. Það er útúrsnúningur; sameiningin gengur jafnt yfir bæði söfnin.

Jeg þarf ekki að svara hæstv. forsrh. öðru en því, að nauðsynlegt var að breyta frv. frá því, sem stjórnin gekk frá því. Það var sem sje vitað, að hún ætlaðist ekki til, að sameiningin kæmist á fyr en annaðhvort embættanna losnaði, en ekki að þjóðskjalaverðinum yrði varpað út á gaddinn. (Forsrh. SE: Það hefði engin stjórn gert, því að þá hefði hún brotið lögin). Nei, lögin væru ekki brotin, heldur tilgangur þeirra.

Ef frv. stjórnarinnar hefði orðið að lögum óbreytt, þá var skylt að leggja þjóðskjalavarðarembættið niður strax, og þá var skjalaverði kastað á gaddinn, sem þó ekki var tilætlunin.