03.04.1923
Neðri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (1930)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

það má máske þykja óþarfi af mjer að standa upp nú, þar sem mælskuræða hæstv. forsrh. virtist vera nokkuð utan við efnið. Hann reyndi sýnilega að fylla með orðum upp í eyður röksemdanna. Það er þó varla af því hann viti ekki betur, heldur mun honum finnast, að hann þurfi, úr því sem komið er, að standa við frv. og mæla með því. En óneitanlega er það þreytandi að hlusta á þennan sífelda misskilning, og ógeðfelt fyrir hann hlýtur það að vera að tala svona þvert um hug sjer og hamra stöðugt á því, að stjórn safnanna verði jafngóð eftir sem áður. Það væri raunar ágætt, ef hægt væri að láta fyrirtækin stjórna sjer sjálf og eitthvað það „perpetuum mobile“ uppgötvaðist, sem gengi sjálfkrafa og án þess að nokkurra yfirmanna þyrfti við, og embættin gengju eins vel, þó enginn sæti í þeim. En hvaða trygging er fengin fyrir því, að góðir menn fengjust til að hafa stjórn safnanna á hendi eftir sameininguna. Þegar synt er á milli fjarskyldra starfa, eru líkur fyrir því, að starfskraftarnir dreifist og lítið verði úr verki. Hæstv. forsrh. taldi söfnin ekki þurfa að vera í góðu lagi, þótt sinn maður væri yfir hverju þeirra; en ætlar hann þá að sanna, að ef Landsbókasafnið sje í ólagi, þá sje það sökum þess, að það hefir haft sjerstakan mann yfir sjer? Nei, spurningin er um það, hvort Alþingi vill kosta til safnanna eins og þarf. Hefðu forsendur stjórnarinnar fyrir afnámi embættanna verið þær, að fjárhagur ríkisins væri svo þröngur, þá hefði það verið afsakanlegra og enda skiljanlegt. Og ef háttv. deild samþykkir frv., sem jeg vona fastlega að ekki verði, þá gerir hún það á þessum grundvelli, en ekki öðrum.

Hæstv. forsætisráðherra hjelt því fram, að ekki þyrfti vísindamenn til niðurröðunar skjalanna og fleiri starfa við söfnin. En sannleikurinn er sá, að það þarf einmitt frábæra vísindamenn til þeirra starfa, svo vel fari úr hendi. Hefði hann farið upp á söfnin og kynt sjer þetta, mundi honum hafa orðið það ljóst, að einungis lærðir menn, með djúptæka þekkingu og langa reynslu, eru til þess hæfir, Jafnvel gætnustu menn gætu mannskemt sig á tilraunum í þá átt, ef þá skortir þann lærdóm og fróðleik, sem til þess heyrir. Hann kvað eins góða vísindamenn geta verið í lægri stöðum safnsins sem æðri. En hjá oss er altaf hætta á því, að efnilegir vísindamenn og vísindamannaefni haldist aldrei til langframa við í þeim með þeim launum, sem þeim eru ætluð. Raunin hefir orðið sú, að þeir gera lítið annað en koma og fara. Og hörmulegt má það vera fyrir oss að geta ekki haft skjalaverði, sem vinnist tími til að gefa sig að vísindalegum störfum samhliða niðurröðun og stjórn safnsins. Engir eru betur til þess hæfir að sinna útgáfum vísindarita en þeir. Erlendis er það algengt, að vísindamönnum eru veittar bókavarðarstöður, til þess eins að geta gefið sig alla við sínum vísindaiðkunum og lifa af því. Hjer er þó ekki verið að fara fram á slíkt. Og það er blekking, ef sagt er, að vjer, með því að hafa hvorttveggja þessara embætta, sjeum að apa eftir erlendum þjóðum. Og um það verður ekki deilt, að í niðurlagning embættanna liggur lítilsvirðing á starfi þeirra manna, sem í þeim hafa verið, þó hæstv. forsrh. reyni að breiða yfir það. Það kemur berlega fram í frv. stjórnarinnar og ekki hvað síst í athugasemdunum. Ef til vill hefir hann ekki samið frv., en það er samt sem áður á hans ábyrgð.

Að lokum get jeg tekið undir það, að mest sje um vert, að duglegir menn og vel hæfir fáist til þess að stjórna söfnunum. En jafnvel hæfustu mönnum má þó ekki fá nema takmörkuð störf, ef þau eiga að vera vel rækt. Og jeg verð að mótmæla því fastlega fyrir hönd allra, sem þessum söfnum unna, að söfnin sjeu svift þeirri tryggingu fyrir góðri stjórn, sem fengin er með því, að sjerstakur maður verði fyrir hvoru þeirra. Um stjórn safnanna samkvæmt lögum hefir engu verið svarað af hálfu stjórnarinnar enn sem komið er, en líklega ekki rjett að fara frekar út í það atriði að sinni.