03.04.1923
Neðri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (1931)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Forsætisráðherra (SE):

Jeg býst við, að fleirum en mjer hafi fundist örðugt að fylgjast með röksemdaleiðslu háttv. 4. þm. Reykv. (MJ). Og mjer er alveg óskiljanlegt, hvað það er, sem fær menn til að koma með aðrar eins fjarstæður og hann hjelt fram. Honum fórust orð eins og enginn yfirmaður ætti að vera yfir söfnunum eftir breytinguna. Hvers vegna segir hann þetta? Honum er það þó kunnugt, að það hefir aldrei verið ætlun stjórnarinnar að leggja slíkt til. Eða getur hann hugsað sjer með þessu að slá ryki í augu hv. þm. eða áheyrenda? Hann komst eitthvað inn á frv. um afnám biskupsembættisins. Hann fór þar líka með staðlausu stafi. Það frv. fór aðeins fram á fækkun biskupa, úr þremur niður í tvo. Viðleitni stjórnarinnar hneigist að því að fækka yfirmönnum og sameina skyld störf undir eina stjórn.

Einkennilegt er það, að hann notar orð eins og „toppfígúru“ um væntanlegan yfirmann safnanna. Auðvitað er það ætlun vor, að það sje maður, sem leggi sig allan fram og helgi starfinu alla krafta sína, og það er alveg ótrúlegt, hvað sumir menn fá áorkað, þegar þeir beita sjer. Það er eins og það sje ætlun sumra að láta menn hafa svo lítið að starfa, að þeirra andlegu hæfileikar fái ekki notið sín. Og svo er það t. d. um sum sýslumannsembættin, og því hefir stjórnin, eins og kunnugt er, lagt það til, að þeim sje fækkað.

Enn skal það tekið fram, að þetta frv. er alls ekki miðað við þá menn, sem nú sitja í embættum. En hv. 4. þm. Reykv. gerðist þó svo djarfur að halda því fram, beint ofan í yfirlýsingar stjórnarinnar, sem ótvírætt hefir látið í ljós þakkir sínar fyrir það starf, sem þessir menn hafa unnið.

Það er þá ekki fleira, sem mig langar að taka fram að þessu sinni, en vil að lokum aðeins óska þess, að hv. deild láti ekki villa sjer sýn í þessu máli.