19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (1941)

79. mál, aukauppbót vegna sérstakrar dýrtíðar

Flm. (Jón Þorláksson):

Eins og greinargerðin ber með sjer, er frv. þetta flutt eftir beiðni Sambands starfsmanna ríkisins. Og hefi jeg ekki annars um það að geta við þessa umr. en að óska þess, að háttv. deild sýni því og mönnunum, sem til þess hafa stofnað, þá kurteisi að lofa því að ganga til 2. umr. Málið er þess eðlis, að það er betur fallið til athugunar í nefnd en til umræðu hjer í deildinni. Samt vil jeg minnast ofurlítið á grundvöll frv. og geta þess, að embættismenn í Reykjavík hafa að svo komnu miklu lægri dýrtíðaruppbót raunverulega en aðrir bæjarbúar. Dýrtíðaruppbót embættismanna er nú 60%, en til samanburðar má geta þess, að kaup daglaunamanna er meira en þrisvar sinnum hærra en fyrir stríðið. Þá var það 35 au. um kl. tímann, en nú er það kr. 1.20 um kl.t. Kaup iðnaðarmanna er líka meira en þrisvar sinnum hærra en þá var. Og dýrtíðaruppbót annara fastra starfsmanna í bænum er töluvert hærri en sú, er starfsmenn ríkisins fá.

Í erindi, sem hefir borist frá Sambandi starfsmanna ríkisins og lagt mun verða fyrir nefndina, sem fær frv. til meðferðar, og menn fá að kynna sjer, er gerð nokkru nánari grein fyrir, að dýrtíðaruppbót þarf að vera hærri hjer í Reykjavík en annarsstaðar á landinu. Og eins og sagt er í greinargerð frv., þá eru líka nokkrir aðrir staðir á landinu, þar sem dýrtíðin er meiri en alment gerist.

Vonast jeg eftir, að þetta geti verið til athugunar fyrir nefndina. Læt jeg mjer því nægja að sinni að óska, að frv. gangi til 2. umr. og fjárhagsnefndar.