05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í C-deild Alþingistíðinda. (1944)

79. mál, aukauppbót vegna sérstakrar dýrtíðar

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Eins og nál. okkar minni hluta manna ber með sjer, getum við ekki, vegna fjárhags ríkissjóðs, mælt með þessari aukauppbót, sem yrði allhá. En við höfum jafnframt bent á aðra sanngjarna leið til þess að ljetta undir með þeim, sem harðast verða úti um húsaleigu, og það er að stjórnin megi veita þeim nokkurn styrk sjerstaklega. Og jeg sje ekki, að það ætti að valda nokkrum óþægindum fyrir stjórnina eða óánægju hjá öðrum, ef stjórn starfsmannasambandsins gerði tillögur um þetta.

Annars játa jeg, að dýrtíðaruppbótin lækkaði um síðastliðin áramót meira en sem svarar verðlækkun á vörum á sama tíma, en þetta er afleiðing af dýrtíðaruppbótarfyrirkomulaginu. Lækkunin kemur sem sje eftir á, hjer um bil ári eftir á, og það er síst embættismönnum í óhag.

Aðalástæðan til þess, að minni hlutinn legst gegn frv., er samt sá, að ríkissjóðurinn hefir að okkar áliti ekki efni á að bæta á sig þessum útgjöldum. Eins og nál. fjvn. ber með sjer, er nú stefnt að talsverðum tekjuhalla á fjárlögunum fyrir árið 1924, og svo mun einnig verða á yfirstandandi ári. Tel jeg því ókleift að fara út á þá braut, sem þetta frv. stefnir að. Jeg skal játa, að þetta má kallast sanngirniskrafa, en það er mörg sanngirniskrafan nú á tímum, sem ekki er hægt að sinna sökum hins þrönga fjárhags vors.

Jeg skal að lokum endurtaka það, að vel mætti bæta úr brýnustu nauðsyninni á þann hátt, sem jeg gat um áðan, að styrkja þá embættismenn að einhverju leyti, sem sjerstaklega stynja undir óhæfilega hárri húsaleigu.