05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (1947)

79. mál, aukauppbót vegna sérstakrar dýrtíðar

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal svara hv. frsm. meiri hl. (JAJ) því, að við minni hl. menn höfum ekki komið okkur saman um að flytja þá till., sem hann gat um. Það ætti að standa nær öðrum að koma fram með hana. Við hitt stend jeg, að við munum ekki ófúsir að stuðla að því, að slík till. nái samþykki þingsins. En jeg skal svo taka það fram, að jeg gleymdi alveg að minnast á það atriði í þessu máli, sem hv. 1. þm. Árn. (EE) gat um í ræðu sinni. Jeg er sömu skoðunar og hann, að það sje síst til meðmæla fyrir frv. að gera þann greinarmun á kaupstaða- og kauptúnaembættismönnum, sem frv. gerir ráð fyrir.

Jeg skal svo að síðustu taka það fram, að þetta hefði horft nokkuð öðruvísi við, ef um það hefði verið að ræða að taka dýrtíðaruppbótina til almennrar athugunar. Þá hefði farið fram alment mat og komið fram, að dýrtíðaruppbótin hefði átt að lækka úti um landið. En þar sem aðeins er um það að ræða að hækka hana, get jeg ekki ljeð því fylgi mitt.