05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (1948)

79. mál, aukauppbót vegna sérstakrar dýrtíðar

Jón Þorláksson:

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 1. þm. Árn. (EE).

Það mun vera ótvírætt viðurkent, að talsvert órjettlæti á sjer stað í launakjörum embættismanna landsins, eins og nú er háttað, og að sumir þeirra fá talsvert minni laun, miðað við aðra, en þeir ættu að hafa, eftir því hve dýrt er að lifa á þeim stað, sem þeir rækja starf sitt. Brtt. meiri hl. nefndarinnar fara fram á að jafna þetta misrjetti. Þó ekki til fulls, heldur að taka af því stærsta kúfinn. Jeg verð nú að halda því fram, að það sje ekki rjettmæt mótbára hjá háttv. 1. þm. Árn. (EE), að með þessu verði ekki komist svo langt, að fult rjettlæti náist. Það er ekki hægt að verja það, að ekki beri að lagfæra mikið órjettlæti af því, að ekki verði náð fullkomnu rjettlæti. Það fer því fjarri því, að sú mótbára háttv. þm. geti orðið nægileg til að fella frv.

Jeg get annars fyrir hönd flm. frv. vottað nefndinni þakkir fyrir, hvern veg hún hefir snúist við málinu. Hún hefir yfirleitt viðurkent, að rjettmætt sje að gera einhverjar ráðstafanir til að jafna þennan mismun á launakjörum embættismanna landsins. — Eitt er þó, sem menn í þessu tilliti verða að gera sjer ljóst, en það er, að þótt mikið hafi verið talað um það, hve þungbær húsaleigan sje orðin hjer í Reykjavík, þá er það ekki það eina, sem þar kemur til greina. Jeg skal benda á það, að almenn verkalaun hjer í bænum munu nú vera um 60% hærri en í öðrum kaupstöðum og kauptúnum landsins yfirleitt. Af þessu leiðir, að alt, sem þeir starfsmenn ríkisins, sem hjer búa, þurfa að kaupa af innlendri vinnu, verður þeim langtum dýrara en embættisbræðrum þeirra úti um land. Því það er svo um verð á öllu, sem innlent er, að það fer að mestu leyti eftir því, hve vinnan er dýr á staðnum. Jeg vona því fastlega, að háttv. deild geti fallist á brtt. meiri hl. og lofi frv. að fara leiðar sinnar, svo að mestu misfellurnar á þessu geti komist í lag.