05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (1954)

79. mál, aukauppbót vegna sérstakrar dýrtíðar

Bjarni Jónsson:

Jeg sje, að jeg hefi verið fyndinn, þegar jeg var að tala um alþjóðkjörna spurningarmerkið um daginn, en hv. 1. þm. Skagf. (MG) fer á því sem sínum eigin reiðskjóta allra sinna ferða, og ætla jeg að lofa honum að berja þar fótastokkinn sem hann lystir. (MG: Jeg hnuplaði því alls ekki, jeg tók fram, hver væri eigandinn). Jeg ætla að benda hv. þm. á það, að hjer er ekki málaflutningsmannasamkunda eða dómstóll, hjer er Alþingi. Hjer eru alls ekki flutt dómsmál eða reifð á neinn hátt. Hjer er þjóðin öll saman komin með sínu valdi. Þótt hún hafi gert samning við einhvern, þá getur hún, ef hún hefir sjeð síðar, að sá samningur er óbilgjarn, án þess að til þess hafi verið ætlast, leiðrjett hann aftur. Það kemur oft fram misrjetti, sem svo er leiðrjett aftur eftir á, er betur hefir verið athugað, og svo mun verða nú, ef þingmenn eru ekki orðnir að lögstirfnum bókstafsþrælum, og því trúi jeg ekki.