16.03.1923
Efri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (1958)

77. mál, skipting Eyjafjarðarsýslu í tvö kjördæmi

Flm. (Einar Árnason):

Eins og greinargerð frv. ber með sjer, er það flutt samkvæmt ósk 2 þingmálafunda í kjördæminu. Þessi ósk var svo eindregin og ákveðin, að ekkert atkvæði var á móti, og voru fundir þessi haldnir sinn í hvoru hinna væntanlegu kjördæma. Kjördæmaskipunarmálinu var og hreyft á þriðja fundinum, en þar snerust umræður aðallega um það, hvort rjett væri að breyta svo til alment, að kjördæmin væru stækkuð og hlutfallskosning höfð. Virtist það lítinn byr hafa, og gekk því ekki fram. Jeg gat því ekki sjeð annað, eftir því sem fram hefir komið um þetta mál í kjördæmi sínu, en að sjálfsagt væri að flytja þetta frv. Og jeg geri það því fremur, sem það hefir verið og er skoðun mín, að rjett sje að hafa einmenniskjördæmi alstaðar á landinu, nema ef til vill hjer í Reykjavík.

Fyrir þessari skoðun minni mætti færa margar ástæður, en jeg ætla ekki að svo komnu að fara langt út í það. Þó vil jeg benda á, að það sýnist talsvert misrjetti fólgið í því, að fjöldi af kjósendum í landinu hefir ekki rjett til að kjósa nema einn fulltrúa, en aðrir hafa rjett til að kjósa tvo. En átakanlegast kemur þetta misrjetti fram í tvímenniskjördæmum, þegar lítill meiri hluti getur neytt aflsmunar gagnvart stórum meiri hluta og sent tvo fulltrúa, en minni hlutinn engan.

Þegar nú svo stendur á, að eitthvert tvímenniskjördæmi skiftist að miklu leyti í tvær heildir með gerólíkum stefnum í landsmálum og áhugamálum, þá er eina leiðin til rjettlætis sú, að skifta kjördæminu, því samhugur getur aldrei orðið um fulltrúana, enda hætt við, að sú sambúð geti ekki orðið happadrjúg til lengdar.

Þegar nú þannig er ástatt í einhverju kjördæmi, að skoðanir og stefnur kjósenda í landsmálum eru gersamlega andstæðar, þá er það næsta erfitt fyrir þá, sem með umboð þeirra fara, að leysa störfin svo af hendi, að báðir partar uni vel við. Og þó það sje sjálfsagt, að þingmaðurinn láti sína eigin sannfæringu ráða, ef hann greinir á við kjósendur, þá er þó æskilegra að haga skipulaginu á þá lund, að sá ágreiningur verði sem minstur og sjaldgæfastur, því takmarki er frekar hægt að ná, ef kjördæmin eru ekki mjög stór.

Ekki verður því heldur neitað, að í einmenniskjördæmi verður samvinnan milli þingmanns og kjósenda auðveldari, viðlendið minna og kynningin meiri. Áhuginn á landsmálum helst betur vakandi og kjósendurnir verða pólitískt þroskaðri. Er það alls ekki lítils vert, þar sem kosningarrjettur er svo víðtækur sem hjer gerist.

Nú er þess ekki að dyljast, að í því kjördæmi, sem þetta frv. fjallar um, eru allmiklar pólitískar andstæður, og greinir þar milli Siglufjarðar og nokkurs hluta norðursýslunnar annars vegar og innsýslunnar hins vegar. Í nyrðri hlutanum er sjávarútvegur, en í innri hlutanum er nær eingöngu stundaður landbúnaður. Þessir tveir hlutar kjördæmisins hafa því algerlega óskyld áhugamál og andstæðra hagsmuna að gæta.

Vitanlega hefði Siglufjörður helst kosið að vera kjördæmi út af fyrir sig. En jeg taldi tilgangslaust að flytja það mál á þinginu. Hins vegar sýnist ekkert vera því til fyrirstöðu að skifta kjördæminu, einkum þar sem það virðist vel fallið til skiftingar af hagsmunalegum ástæðum, eins og jeg hefi drepið á.

Á síðasta þingi kom fram frv. um að skifta Húnavatnssýslu í tvö kjördæmi, og jeg minnist ekki annars en það gengi fram mótmælalaust. Jeg þykist því mega vænta þess, að þessi hv. deild taki eins vel undir þetta frv. og greiði götu þess til Nd.

Rjett tel jeg, að málið sje athugað í nefnd, og vil jeg leyfa mjer að leggja til, að því sje vísað til allsherjarnefndar að þessari umr. lokinni.