07.04.1923
Efri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (1960)

77. mál, skipting Eyjafjarðarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Þetta mál hefir nú alllengi legið hjá nefndinni, af þeirri ástæðu, að hún hefir haft svo mikið að starfa.

Það hafa komið — eins og gerð var grein fyrir við 1. umr. þessa máls — tilmæli úr 2 stöðum um, að Eyjafjarðarsýslu yrði skift í tvö kjördæmi, annars vegar frá Siglufirði, sem haldið er fast fram að eigi að verða sjerstakt kjördæmi, en hins vegar frá þingmálafundi, sem haldinn var að Grund í Eyjafirði. Þótt nú væri gert ráð fyrir því, sem væri vafalaust of drjúglega mælt, að allir þeir menn, sem búa í hreppum þeim, er hlut eiga að máli, vildu þessa breytingu, þá er það ekki helmingur allra kjósenda í kjördæminu. Á Siglufirði eru 495 kjósendur, en í þeim 3 hreppum, sem áttu með sjer þingmálafundinn á Grund, eru 613 kjósendur, en samanlagt verður það 1108 kjósendur. Væri nú svo, að þessi breyting væri að vilja allra þessara manna og engir aðrir kæmu með mótmæli gegn henni, þá virtist það benda til þess, að rjett væri að gefa eftir. En nú er annað uppi á teningnum. Nefndinni hafa fyrir alllöngu síðan borist mótmæli frá 4 hreppum, sem sje Glæsibæjarhreppi, Öxnadalshreppi, Arnarneshreppi og Skriðuhreppi, frá fulltrúafundi þessara hreppa. Eftir sömu reglu og þeirri að telja meðmælin með breytingunni almenn á þessum umræddu stöðum, yrði einnig að líta svo á, sem allir kjósendur í þessum hreppum væru mótfallnir henni. í þessum hreppum eru ekki færri kjósendur en 678, eða fleiri en í þrem innhreppunum, sem vildu kjördæmisskiftinguna. Afleiðingin yrði sú, ef þetta yrði gert að lögum, að það yrði á móti vilja kjósenda í innhjeraðinu. Þeir eru fleiri móti skiftingu en með henni. Sje nú litið á hitt fyrirhugaða kjördæmið, ytra kjördæmið, þá verður svipað uppi í teningnum að því leyti, að í öðrum hreppum en Siglufirði eru 851 kjósandi. Úr engum þeirra hreppa hefir komið nokkur tillaga um þetta, og er því hæpið, að hægt sje að líta svo á, sem nokkur verulegur vilji sje í úthjeraðinu á því að skifta kjördæminu.

Það er vitanlegt, að ekki er hægt að segja með þessu, að menn viti vilja kjósenda, þó að þessu hafi verið komið til leiðar á einum þingmálafundi. Að minsta kosti treysti jeg mjer ekki til þess. Og meðan menn vita það ekki fyrir víst, þá vona jeg, að menn sjeu ekki svo breytingagjarnir í þessari hv. deild að hlaupa í að gera eitthvað að lögum, sem er þvert á móti því, sem hefir lengi staðið og að mörgu leyti farið vel á. Því er ekki hægt að neita, að margir menn í kjördæminu álíta það rjettarskerðingu að fá ekki að greiða atkvæði nema um einn þingmann, er þeir annars eiga rjett til að greiða atkvæði um tvo. Það gerir að vísu ekki mikið til með kjósendur, sem kjósa eftir ákveðnum pólitískum flokkum og skoðunum þeirra. En það eru margir, sem ekki gera það. Þeir kjósa fremur eftir mönnunum sjálfum, kostum þeirra og viðkynningu við þá. Sem sagt, nefndin hefir ekki treyst sjer til að mæla með þessu frv., einnig af því að hún taldi undirbúning málsins ekki nægilegan. Það því fremur sem hjer um ræðir hið fyrsta sinn að farið er fram á að skifta hjeraði í tvö kjördæmi, án þess að á undan hafi gengið fjárhagsleg skifting. Við höfum enn þá ekki allfá tvímenningskjördæmi, s. s. Suður-Múla- og Norður-Múlasýslur, Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu, Gullbringu- og Kjósarsýslu, Árnes- og Rangárvallasýslur. Það er vitanlegt og eðlilegt, að menn greiði atkvæði um mál þetta eftir því, hversu eindregið þeir vilja hafa 1 þm. fyrir hvert kjördæmi.

Um það eru vitanlega töluvert skiftar skoðanir. Eigi allfáir líta svo á, sem það væri öllu heppilegra fyrir starfshæfileika þingsins, að menn væru kosnir í fámennum kjördæmum. Margir eru fylgjandi hlutfallskosningu, en aðrir vilja einmenningskjördæmin. En þetta er ekki nægilega búið að brjóta sig í þjóðfjelaginu, og fyndist mjer á meðan ekki rjett að fara út fyrir þau takmörk að skifta ekki sýslu í kjördæmi, nema fjárhagsleg skifting hafi á undan gengið.