07.04.1923
Efri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (1962)

77. mál, skipting Eyjafjarðarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg geri ráð fyrir, að það sje engin ástæða til að þreyta kappræður um þetta mál, enda er það ekkert stórmál. Jeg ætla því fáu við að bæta og geri ráð fyrir, að málið skýrist lítið úr því, sem orðið er.

Mjer finst ekki vera hægt að neita því, að undirbúningurinn sje svo lítill, að það sje ekki verjandi að halda inn á þessa nýju braut við svo búið. Jeg játa, eins og hv. flm. (EÁ) mintist á, að fulllangt var gengið af þinginu í fyrra að því er snertir Húnavatnssýslu. Það hafði þó þá málsbót, að fyrir mörgum árum var komin á fullkomin skifting á fjárhag sýslufjelaganna. Það er játað af háttv. flm., að þetta sje nýmæli. Það gerði nú minna til, ef hægt væri að sanna með rökum, að meiri hluti sýslubúa væri á eitt sáttur með skiftinguna. En það get jeg ekki sjeð, að sje útlit fyrir. Ef álykta mætti af því, sem fram hefir farið í Eyjafirði út af þessu máli, er ekki annað sýnna en breytingin yrði gerð að óvilja meiri hlutans í innhjeraðinu. Um ytri hluta sýslunnar er ekki hægt að segja, en ávinningurinn, sem honum hlotnaðist með skiftingunni, er vafasamur. Eyjafjarðarsýsla er fyrst og fremst landbúnaðarhjerað, og er líklegt, þótt skiftingin næði fram að ganga, að fulltrúar landbúnaðarins næðu kosningu. í þessum eina hreppi, Siglufirði, er ekki nándarnærri helmingur kjósenda. Viðvíkjandi undirbúningsleysinu er það að segja, að sýslunefndin hefir enn þá ekkert um málið sagt. Það væri þó fullkomin ástæða til þess, og það því fremur sem ætlast er til þess að lögum, að engu slíku máli sje ráðið til lykta, nema álits sýslunefndar sje áður leitað.

Þetta gildir um þau mál, sem snerta sýslufjelögin, en Alþingi getur auðvitað sett sig út yfir þetta, en það er ekki heppilegt fyrir löggjafann að gefa fordæmi að slíku. í stuttu máli: Undirbúningur þessa máls er lítill; maður veit ekki um vilja kjósendanna og málinu liggur ekkert á.