12.03.1923
Neðri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (1991)

19. mál, vitabyggingar

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg þarf ekki að hafa langa framsögu í máli þessu; get jeg vísað til greinargerðar frv. og nefndarálitsins á þskj. 80. Það munu og allir viðurkenna, sem kunnir eru strandferðunum, að viða er enn þörf á vitum, og ekki hvað síst verða strandferðirnar hættulegar á vetrin og haustin fyrir þá sök, hve vitakerfið er enn þá skamt komið og ófullnægjandi. En þegar til þess kemur, að þetta dýra vitakerfi verði komið í viðunanlegt horf og þar með gert mögulegt að halda uppi sæmilegum strandferðum alt árið, þá vaknar fyrst spurningin um það, hvað mikið oss sje unt að leggja af mörkum til þess árlega. Eins og frv. bendir til, er það ekki ætlunin að láta sitja við það, sem ríkissjóður getur lagt til hvert sinn, heldur einnig að taka lán til þeirra framkvæmda. Liggur þá næst að athuga, hvað stóru láni ríkissjóður geti annað án þess að taka sjer of nærri.

Nefndin hefir nú einungis breytt ákvæðinu í 3. gr. frv., og hefir hún með því viljað reisa skorður við því, að ráðist yrði í verkið með svo miklum árlegum framlögum, að ríkissjóður ætti erfitt með að standa straum af því, og ætlast nefndin til, að miðað verði við það, að árlegir vextir og afborgun lánsins fari eigi fyrst um sinn fram úr afgangi vitagjaldsins af rekstrarkostnaði vitanna. Samkvæmt því leggur hún til, að framkvæmd verksins taki 12 til 16 ár. Munurinn á vitagjaldi og rekstrarkostnaði er nú um 50 þús. kr., sem minkar auðvitað þegar fram í sækir og vitunum fjölgar. Vitamálastjórinn lagði það til í fyrstu, að verkið yrði unnið á 8–10 árum, en taldi þó framkvæmd þess hæfilega sniðinn stakkur á þennan veg.

Við 4. gr. frv. hefir nefndin komið með lítilfjörlega brtt, og mun hún öllum auðskilin. Er ekki nema eðlilegt að gera ráð fyrir því, að breyta þurfi um legu einstakra vita, svo sem frv. ráðgerir, en nefndin hyggur, að jafngild ástæða geti orðið til að breyta ljósmagni þeirra, og bætir því við.

Fjölyrði jeg svo ekki frekar um þetta, býst líka fastlega við, að frv. fái góðan byr í deildinni. Það lá fyrir þingi árið 1917 og fjekk þá góðan undirbúning og viðtökur, þótt frestað væri þá afgreiðslu.